140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Það má til sanns vegar færa að ýmislegt hefur gengið ágætlega á þeim þremur árum sem liðin eru í þeim erfiðu verkefnum sem við blöstu í upphafi kjörtímabils. Þó eru enn þá verkefni óleyst og við þingmenn erum á hverjum degi minntir á að víða um land er fólk sem glímir við allverulegan skuldavanda. Síðast í gærkvöldi fengum við, margir þingmenn, bréf frá fólki sem hefur ekki getað fallið undir hina svokölluðu 110%-leið vegna þess að Íbúðalánasjóður hefur ekki miðað við fasteignamat í útreikningum sínum. Þarna er fólk sem kaupir íbúð á 15 milljónir árið 2006, tekur lán upp á 12 milljónir og í dag er íbúðin búin að lækka um 1 milljón en skuldirnar hafa hækkað upp í rúmar 18 milljónir. Þetta er hin svokallaða stökkbreyting lána sem blasir við mörgum, mjög alvarleg staða sem fer síversnandi með hverjum mánuðinum sem líður. Það er skylda okkar að takast á við þennan vanda.

Ég tel að það eigi að skoða allar leiðir til að mæta því fólki sem hefur ekki getað nýtt sér 110%-leiðina vegna þess að hún hefur verið mismunandi útfærð, til að mynda með því að nota skattkerfið til að mæta því fólki sem skuldar umfram 100% af fasteignamati í skattfrádrætti. Sú staða sem upp er komin er á ábyrgð þeirra sem töluðu um hinn falska stöðugleika sem ríkti frá 2003 til 2007 og það er á ábyrgð þeirra sem þverskölluðust við að tala um að breyta um gjaldmiðil á þessum tíma og sögðu að Evrópuaðild eða evra væri ekki á dagskrá og að krónan væri fín. Hún er á ábyrgð þeirra sem einkavæddu bankana, þessi staða sem upp er komin. Það er á ábyrgð stjórnvalda að mæta þeim vanda sem við blasir. Við verðum að gera það sameiginlega hér því að þessi staða er ekkert að skána. Það blasir við að þetta er vandamál sem enn þá (Forseti hringir.) eimir eftir af þótt ýmislegt hafi gengið ágætlega. Hópunum hefur fækkað sem eiga við vanda að etja en þá stendur þessi hópur eftir (Gripið fram í.) og við verðum að vera samhent í því efni (Forseti hringir.) og hætta þeirri forheimskun sem birtist (Forseti hringir.) í ræðu hv. þm. Ásmundar Daða Einarssonar áðan.