140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:52]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ljóst er af þeim tveimur tillögum sem hér eru ræddar, hvort heldur tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011–2022 eða þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2011–2014, að eins og alltaf er fjármagninu misskipt á milli landshluta. Enn sem fyrr er hlutur höfuðborgarsvæðisins, hvort heldur er Reykjavíkurkjördæma eða Suðvesturkjördæmis, afar rýr á miðað við þá fjármuni sem áætlað er að leggja í aðra landshluta.

Mig langar að gera grein fyrir fjórum tölum, virðulegur forseti.

Í fjögurra ára áætluninni fyrir 2011–2014 er áætlað að til suðursvæðis renni 5,7 milljarðar. Á suðvestursvæðið, sem er höfuðborgarsvæðið, fara 3 milljarðar, á norðvestursvæðið 13 milljarðar og á norðaustursvæðið 13,7 milljarðar. Ég tek það fram að þar inni eru að sjálfsögðu ekki Vaðlaheiðargöng á norðaustursvæði. (Gripið fram í.) Þau eru í það minnsta ekki inni í fjárhæðum fyrir tímabilið 2011–2014.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra fyrst eftirfarandi spurninga sem ég óska að sjálfsögðu eftir svörum við.

Ég velti fyrir mér varðandi tillögu til þingsályktunar, hvort heldur er til 2022 eða til 2014, sem við ræðum saman: Hvert er í raun leiðarljósið fyrir utan stefnumörkun um að búa til atvinnukjarna og gera greiðfærara að slíkum atvinnukjörnum og innan þeirra? Hefur verið hugað að öryggismálum almennt, öryggi á vegum? Nú hafa vegir á Íslandi verið teknir út og ljóst er að öryggisstöðlum ýmissa vega er verulega ábótavant. Þess sér ekki stað í þingsályktunartillögunni að ganga eigi í það verk með hraði og lagfæra.

Ég spyr: Hvers vegna ráða ekki öryggismál vegfarenda, akandi sem gangandi? Af hverju eru þau mál ekki sett á oddinn þegar þingsályktunartillögur um samgönguáætlanir almennt eru ræddar?

Einnig hefur komið í ljós að öryggismálum á til dæmis nýlagðri tveggja akreina Reykjanesbraut er víða ábótavant. Maður spyr sig: Hvert er eftirlitið á því svæði þegar nýframkvæmdir sem þessar uppfylla ekki ýtrustu kröfur um öryggi? Látum vera þótt ýmsir vegir sem ekki hafa verið lagaðir árum og áratugum saman uppfylli ekki slíkar öryggiskröfur, en við hljótum að gera kröfu um að nýframkvæmdir í vegamálum uppfylli ýtrustu öryggiskröfur.

Ég spyr hæstv. innanríkisráðherra: Hvers vegna eru öryggiskröfur ekki settar í fyrsta sæti? Hvers vegna uppfylla nýframkvæmdir ekki einu sinni ýtrustu öryggiskröfur?

Þó er ástæða til að geta þess sem vel er gert. Ég vil fyrir hönd okkar sem búum á höfuðborgarsvæðinu í það minnsta, fagna þeim fjármunum sem áætlað er að setja í almenningssamgöngur vegna þess að ég held að það skipti meginmáli. Ég held að það skipti líka meginmáli að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu komi sér saman um skipulagsmál, um stöðu almenningssamgangna almennt til þess að gera fólki kleift að nýta sér þær betur en áður og meira en við höfum leitt hugann að undanfarin ár í skipulagsmálaumræðunni. Ég bið um að hæstv. ráðherra íhugi þetta almennt og svari spurningum mínum.

Síðan ætla ég að gerast hressilegur kjördæmisþingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi sem ég er þingmaður fyrir. Mig langar að bera saman það sem var inni í áætluninni 2009–2012 og síðan það sem er í áætluninni 2011–2014.

Það fyrsta sem ég rek augun í og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er hinn svokallaði Álftanesvegur sem er í fyrri áætluninni jafnlangur og í þeirri áætlun sem við ræðum nú, 4,5 km. Í áætluninni frá 2009–2012 er vegurinn merktur sem vegtegund A22 en í þingsályktunartillögunni 2011–2014 er hann allt í einu merktur sem C11.

Hvað veldur þeirri breytingu? Er það af því hann er ekki eins og þjóðvegur eða eins og Reykjanesbrautin sem er merkt A34, en hringvegurinn er merktur A22? Er stigsmunur á því? Hvers vegna hefur Álftanesvegur skipt um merkingu?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra: Er það ef til vill ástæðan fyrir því að kostnaður við Álftanesveginn hefur lækkað á milli áætlana um tæpar 200 millj. kr., úr 1.394 millj. kr. í 1.100 millj. kr.? Er það tengt merkingu veganna?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um Arnarnesveginn, vegna þess að þær vegalengdir sem leggja á í núna eru styttar verulega. Í áætluninni 2009–2012 var vegalengdin 4,2 km. Þar er Arnarnesvegur merktur A22. Hann hefur farið í C10 úr A22. Nú er lengd þess kafla sem leggja á í 1,8 km. Getur hæstv. ráðherra svarað því hvað veldur þessari ólíku flokkun?

Varðandi Arnarnesveginn. Laga á Reykjanesbrautina að Fífuhvammsvegi og kostnaðurinn við það er áætlaður 600 milljónir. Ekki á að hefja verkefnið fyrr en á síðasta hluta áætlunarinnar, eða árið 2014. Þó er fyrirhugað að hefja framkvæmdir við Álftanesveg árið 2012, eða á þessu ári.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra af því að það er inni í samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022 í Suðvesturkjördæmi: Hvað hafa menn velt fyrir sér varðandi þær framkvæmdir sem þá eru fyrirhugaðar? Ég nefni Vesturlandsveginn frá Þingvallavegi í Kollafjörð og frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum. Hvenær er áætlað að fara í framkvæmdir þar á því tímabili?

Ég vil láta í ljós þá skoðun mína að ég er hlynnt því sem fram kemur í áætluninni — það kann að vera að það finnist ekki öllum þingmönnum þessa kjördæmis því að þarna fara saman tvö kjördæmi, annars vegar Suðvesturkjördæmi og síðan Reykjavík að hluta — að akstursstefnurnar verði aðgreindar í 2+1. Það er skoðun mín að við eigum ekki að byggja mannvirki sem þjóna tveimur klukkutímum á sólarhring, öðrum að morgni og hinum undir kvöldmat, eða helgarkeyrslu á sumrin, vegna þess að öryggi vegfarenda á að vera í fyrirrúmi. Við verðum einfaldlega að gefa okkur ívið lengri tíma til að fara á milli staða eins og þekkt er víðast hvar annars staðar í heiminum.

Það er einn vegur í mínu kjördæmi sem ætíð situr á hakanum, það er Kjósarskarðsvegurinn. Ég er ekki alveg viss um að öllum sé það ljóst hvert gildi Kjósarskarðsvegarins er í raun og veru. Kjósarskarðsvegur er ákveðinn öryggisvegur; hann er öryggisventill. Honum hefur ekki verið sinnt árum saman og menn hafa frestað verkefnum í þann veg. Ég tek það sem dæmi að það eru tvær brýr á veginum út frá Reykjavík, vestur í land og í norður, sem ekki þola þungaflutninga. Annars vegar er það brúin yfir Köldukvísl og hins vegar brúin yfir Laxá í Kjós. Þungaflutningabílar sem eru of þungir fyrir þessar brýr verða að fara Kjósarskarðsveginn. Svo einfalt er það.

Og verði slys í Hvalfjarðargöngunum eða á þeim kafla er Kjósarskarðsvegur öryggisvegur fyrir alla þá sem ætla norður úr sem og þá sem koma að norðan og ætla suður og austur fyrir.

Lagt er til að haldið verði áfram við endurgerð Kjósarskarðsvegar á 2. og 3. tímabili. Það er þá á tímabilinu 2011–2022, þannig að við horfum til þess að á seinna tímabilinu, 2018–2022, verði farið í framkvæmdir á hinum margfræga Kjósarskarðsvegi. Hitt er tímabilið 2014–2018. Það er með öllu óboðlegt.

Forseti. Tími minn er á þrotum. Ég fagna því sem vel er gert. Í áætluninni eru fyrirhugaðar almennar aðgerðir, bætt umferðarflæði vegna almenningssamgangna, sem ég kom inn á áðan, umferðarstýring á höfuðborgarsvæðinu, ýmis öryggisatriði, hjóla- og göngustígar og göngubrýr og undirgöng. Í það eru settir verulegir fjármunir sem stuðla bæði að öryggi og greiðfærni og eru í sjálfu sér líka byggðamál. Eins á að tengja byggðir, jafnt sveitarfélög sem einstaka hverfi innan kaupstaða á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna því sem vel er gert.

Talað er um undirbúning verka utan áætlunar sem settir eru fjármunir í, allt að 180 milljónir á bilinu 2012–2014. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað eru menn helst að hugsa um í því sambandi?

Ég legg áherslu á að fá svör við því hvers vegna öryggisatriði vegfarenda, gangandi sem akandi, eru ekki í forgrunni í allri áætluninni.