140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég held að það sé ágætt og mikilvægt að hv. umhverfis- og samgöngunefnd fari yfir og skoði sérstaklega þá þætti sem hann nefndi í upphafi ræður sinnar hvað líður hugsanlegum breytingum á gjaldtökunni, þ.e. hvar sú þróun sem hefur orðið á svokallaðri GPS-tækni er stödd í ferlinu. Við samþykkt tveggja frumvarpa um einkaframkvæmdir var töluvert rætt hér hvernig væri hægt að standa að þessum hlutum. Ég held að mikilvægt sé að nefndin, og tek undir það með hv. þingmanni, skoði sérstaklega hvar málið er statt og innan hve langs tíma sé raunhæft að taka upp þessa aðferðafræði við að innheimta veggjöld. Þá gætu menn, eins og hv. þingmaður nefndi, þar sem vegir eru slæmir og óuppbyggðir og þar fram eftir götunum notið ákveðinna ívilnana.

Ég staldra við annað sem hv. þingmaður kom inn á og ég tel mikilvægt að við ræðum líka. Hv. þingmaður talaði um að þetta gæti hugsanlega flýtt fyrir framkvæmdum eins og Vesturlandsvegi, Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut. Eins og við munum var hugmyndin alltaf sú að þær yrðu í einkaframkvæmd fjármagnaðar sérstaklega með ákveðnum veggjöldum fyrir utan aðra skattlagningu í kerfinu. Ég vil bara minna á að íbúar svæðisins höfnuðu því að fara í þessar framkvæmdir ef sérstakt veggjald yrði á þeim. Það hafa íbúar á Norðurlandi hins vegar ekki gert gagnvart Vaðlaheiðargöngum. Það er því mikilvægt þegar við ræðum þessa tækni við innheimtu að við séum meðvituð um að við erum ekki að gera það til að flýta fyrir veglagningu á svokölluðum stofnbrautum þegar íbúar á því svæði hafa þegar hafnað frekari gjaldtöku vegna þeirra framkvæmda.