140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:22]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Mikilvægt er að undirstrika að með því sem ég lýsti í ræðu minni átti ég alls ekki við hina hefðbundnu innheimtu veggjalda á þeim stöðum sem menn hafa verið að tala um, eins og sérstök tollahlið á Reykjanesbraut og Suðurlandsvegi.

Ég er þeirrar skoðunar, því að þarna er mikill og eiginlega mesti umferðarþunginn, að ef menn væru með heildstætt kerfi, sem væri notendagjaldakerfi, væru vegir sem eru jafnöruggir og t.d. Reykjanesbrautin, sem er upplýst og með aðskildum akreinum með gryfju á milli, og Suðurlandsvegur, eins og við sáum hann síðast í Lögmannsbrekku og upp að Litlu kaffistofunni, í sérstökum verðflokki. Ferðir væru verðlagðar með sérstökum hætti í kerfinu þannig að þeir sem nýttu veginn mest mundu alltaf greiða fyrir akstur í þeim verðflokki. Þarna mundi þess vegna töluvert teljast inn. Með þessu er í sjálfu sér hægt að nálgast sömu hugmyndina með ólíkum hætti. Með kerfinu er hægt að setja inn breytur sem koma til móts við t.d. búsetu manna á svæðinu. Hægt er að setja inn í slíkt kerfi innbyggðan magnafslátt, ákveðin hámörk og mæta mismunandi tímasetningum. Ef námsmenn færu til dæmis þessa leið til að sækja háskóla gætu menn tekið á því og komið þannig til móts við byggðirnar.