140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:26]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að skila auðu við spurningu hv. þingmanns vegna þess að ég hef í sjálfu sér ekkert velt því fyrir mér hvort í þetta eigi að fara vegafé kjördæmisins. Í raun og veru er málið svo undarlega vaxið eins og það er núna að það er eiginlega ekki lengur á könnu umhverfis- og samgöngunefndar. Það heyrir frekar undir fjárlaganefnd.

Ég vil bara undirstrika það sem ég sagði í ræðu minni og þakka hv. þingmanni kærlega fyrir skoðanaskipti okkar. Mér finnst nauðsynlegt að við tökum þessa umræðu með framtíðina í huga. Við getum séð fyrir okkur hvernig við förum úr þeim hjólförum sem við höfum verið í í þessari umræðu og birtist okkur oft í einhvers konar reiptogi á milli kjördæma og finnum leiðir sem henta þó mismunandi séu til að fjármagna nauðsynlegar samgönguframkvæmdir eins og er verið að gera í tilviki Vaðlaheiðarganga. Þar er eins og hv. þingmaður bendir réttilega á vilji til að undirgangast hefðbundna vegtolla. Menn ganga ekki óljósum skrefum að því hvað þar er á ferðinni. Menn vita það og það er uppi á borðum. Auðvitað munu menn gera það um nokkuð langa hríð og jafnvel lengur en nú blasir við.

Í þeim veruleika sem ég lýsti gætu menn til dæmis farið af stað núna með lántöku fyrir framkvæmdum á suðvesturhorninu sem síðan mundu fara inn í þetta alhliða kerfi.

Að öðru leyti vil ég segja að ég mun að sjálfsögðu skoða framsetningu þeirrar ágætu tillögu sem nú liggur fyrir umhverfis- og samgöngunefnd í störfum nefndarinnar.