140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsagt að verða við þeirri beiðni að koma í andsvar þar sem ég tjái minn hug gagnvart Vaðlaheiðargöngum. Það gerði ég reyndar skriflega síðastliðið vor. Þá skrifaði ég bréf þar sem ég lýsti þeim forsendum sem þyrftu að mínu mati að vera til staðar til að ráðist yrði í þessa framkvæmd, þ.e. að hún væri efnahagslega sjálfbær, risi undir sér með veggjöldum að öllu leyti. Þetta mál er til umfjöllunar í nefndum þingsins, í samgöngunefnd og fjárlaganefnd Alþingis, og mér finnst eðlilegt að bíða niðurstöðu þeirra aðila en afstaða mín er tvímælalaust þessi.

Að öðru leyti vil ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og margar athyglisverðar vangaveltur varðandi flugið, strandsiglingar og aðra þætti sem ég mun víkja að í lokaræðu minni á eftir.