140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:13]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er freistandi að reyna að fá frekara svar af hálfu hæstv. innanríkisráðherra hvað varðar viðhorf hans til Vaðlaheiðarganga. Nú liggur fyrir skýrsla IFS Greiningar, um sjálfbærni þessa verkefnis, og að mati þess sem hér stendur gefur sú greining ágætlega grænt ljós á framkvæmdina, sýnir fram á að hún getur verið efnahagslega sjálfbær, svo fremi aukið verði við hlutafé Vaðlaheiðarganga ehf. Og sá vilji er fyrir hendi, hann hefur komið fram hjá þar til bærum aðilum, hvort heldur er sveitarfélögum á Eyjafjarðar- og Þingeyjarsvæðinu, fyrirtækjum á því svæði, og öðrum aðilum sem hafa sýnt í verki áhuga á þessu verki.

Við skoðun á þessum skýrslum kemur í ljós að gert er ráð fyrir mjög varfærinni umferðarspá og er rétt að hafa í huga að sterk fylgni, nánast upp á prósentu, er á milli hagvaxtar í þessu samfélagi og umferðaraukningar. Spáin gerir ráð fyrir 1–2% aukningu á næstu árum þegar fyrir liggur að hagvaxtarspáin gerir ráð fyrir 2,5–3,5% aukningu á næstu árum, og gott betur ef ráðist verður í ýmsar framkvæmdir. Í ljósi þessa, þó að ekki sé farið út í aðra sálma, er ljóst að umferðaraukningin á þessu svæði verður mikil.

Ég endurtek spurningu mína, herra forseti, til hæstv. innanríkisráðherra: Telur hann að þær skýrslur, nú síðast frá IFS Greiningu, sýni að þetta verkefni sé sjálfbært?