140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:17]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað ber að horfa í þessa veru og veggjöld eru og munu eflaust verða umdeild. En rétt er að halda því til haga að almenningur á Eyjafjarðar- og Þingeyjarsvæðinu hefur verið mjög áfram um þessa framkvæmd. Mikil samstaða hefur verið í héraði um að ráðast í gerð þessa verkefnis, hvort heldur er meðal almennings sem hæstv. ráðherra vísar til, fyrirtækja á svæðinu sem eru mörg hver öflug matvælafyrirtæki og þurfa að flytja vörur sínar um allt land, og ekki síst sveitarfélaganna á þessu svæði sem staðið hafa vörð um verkefnið og verið einhuga um framgang þess.

Það er mjög mikilvægt og það er gott og rétt að halda því til haga að samstaðan í héraði hvað þetta verkefni varðar er allt önnur og meiri en við sjáum hér sunnan heiða og kann skýringin ef til vill að vera sú að þar er ekki um jafnvalkvæða vegamöguleika að ræða og til dæmis á þessu svæði. Ég tel að vegtollar séu ekki síst réttlætanlegir fyrir þær sakir að hægt er að velja aðrar leiðir en þær sem gjaldskyldar eru.

Í því efni er rétt að hafa í huga að þegar spá var gerð um notkun Hvalfjarðarganga á sínu tíma var fyrsta spáin sú að 53% bíla mundi fara um þau göng. Reyndin er náttúrlega allt önnur. Ég hygg að notkunin sé vel yfir 97%. Það er stór munur á 97% og 53%, eins og spáin var í upphafi hvað varðar Hvalfjarðargöng.