140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir það sem hv. þingmaður segir, að það þarf að fara í úttekt á þessu og komast til botns í því hvernig þessir hlutir eru og hvað þetta þýðir. Það stefnir allt í, haldi áfram sem horfir, að það að fljúga innan lands eða jafnvel að aka bíl verði einhvers konar forréttindi á Íslandi. Sjáum við bensínlítrann fara í 300 kr. innan skamms? Er það virkilega þannig? Að einhverju leyti ráðum við ekki við þetta, en að sumu leyti og að langmestu leyti getur ríkið komið inn í og tekið til baka eitthvað af álögum sínum sem eiga ekki að hækka sjálfkrafa þó að heimsmarkaðsverðið hækki að einhverju leyti. Síðan er það spurning af hverju það gengur svo illa að lækka bensín þegar heimsmarkaðsverð lækkar. Ég hef aldrei skilið hvernig það gengur fyrir sig og mun sjálfsagt aldrei skilja það.

Varðandi flugið er vitanlega óásættanlegt að flugmiðinn skuli þurfa að hækka svo og svo mikið, það gerir að verkum að það verður á færi færra fólks að nýta sér flug. Vegna þess að flugið er atvinnumál, það hefur áhrif á ferðaþjónustu, og það er öryggismál, því að fólk þarf að komast til læknis. Nú er búið að skera svo mikið niður í heilbrigðisþjónustunni víða að nýta þarf flugið til að komast til sérfræðinga og til læknis, þannig að þetta hangir allt saman. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að það verði skoðað heildstætt hvernig við viljum hafa þessa hluti.

Það er að sjálfsögðu ekki ásættanlegt að þegar dæmið er reiknað til enda að það borgi sig fyrir fólk að vera á atvinnuleysisbótum og spara þannig leikskólapláss og akstur. Það getur ekki borgað sig. Nú ber ríkisstjórnin sér á brjóst yfir að hafa aukið framlög svo og svo mikið til velferðarmála, þegar það er atvinnuleysið sem hefur aukist lang-, langmest og er í rauninni kannski það eina sem hefur aukist, og þá sér maður alltaf betur og betur á hvers konar ferðalagi ríkisstjórnin er, í algjörlega öfuga átt við það sem eðlilegt væri, þ.e. að auka atvinnu.