140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við erum algjörlega sammála um að stefna ríkisstjórnarinnar er náttúrlega kolvitlaus.

Hv. þingmaður nefndi leikskólapláss í sambandi við það sem sparaðist við það að vera á atvinnuleysisbótum í stað þess að keyra til vinnu, jafnvel þótt það væru ekki nema 30 eða 40 kílómetrar. En þá vil ég segja að í þessu dæmi sem kom fram á fundinum í Borgarnesi, að konan sem sótti vinnu niður í Borgarnes ofan úr sveit; hún var ekki með nein börn á leikskóla, þetta voru bara ráðstöfunartekjurnar miðað við að þurfa að keyra í vinnuna eftir að álögurnar hækkuðu svona mikið, það var betra fyrir hana að vera á atvinnuleysisbótum heima og þurfa ekki að keyra í vinnuna á hverjum degi.

Hv. þingmaður kom líka inn á viðhald vegakerfisins. Það er búið að svelta Vegagerðina allverulega í því. Það gefur augaleið að það er alveg eins með vegi og hús eða annað, menn geta trassað viðhald í ákveðinn tíma en síðan fer þetta náttúrlega allt saman í vitleysu og verður mjög dýrt að byggja það upp. Því vil ég spyrja hv. þingmann um tengivegina. Það er samdóma álit, miðað við umræðuna sem var hér þegar samgönguáætlun var samþykkt 2010 og niðurstöðu samgönguráðs eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra fyrir nokkrum dögum þegar við ræddum þessa áætlun, að hækka til muna vegafé í tengivegi. Það var reyndar hækkað úr 380 millj. kr. í 500 millj. kr. Það mundi gera kleift að menn gætu farið í svona framkvæmdir vítt og breitt um landið, litlar framkvæmdir sem skipta mjög miklu, hvort sem er vegna umferðaröryggis eða mikilvægi þess að koma lélegum vegum í gott stand.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hver sé skoðun hans á því. Getur hv. þingmaður tekið undir með mér að það þurfi í raun og veru að bæta inn í þennan flokk sem kallaður er tengivegir?