140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við lok fyrri umræðu um samgönguáætlun vil ég þakka fyrir hana eins og hún hefur verið, en eins og gengur og gerist skiptast menn á skoðunum um hvað eigi að gera og hvað ekki og hve miklum fjármunum eigi að verja í áætlunina. Sitt sýnist hverjum um það.

Í þessu stutta andsvari vil ég taka undir með hæstv. innanríkisráðherra. Mér finnst mjög gott þegar ég get gert það og kannski loksins. Í framhaldi af umræðu á þingflokksfundi í dag, þ.e. þegar innanríkisráðherra var gestur okkar á fundi Samfylkingar, ræddi hann um stofnun hlutafélags um nýja Vestmannaeyjaferju. Þessu fagna ég alveg sérstaklega þar sem hann tiltók að ríkið, Vestmannaeyjabær og hugsanlega lífeyrissjóðir mundu koma þar að um stofnun hlutafélags sem mundi fara í að byggja og væntanlega reka nýja Vestmannaeyjaferju með tilliti til þess að hún komi eigi síðar en árið 2015. Þessu fagna ég alveg sérstaklega. Ég er þess fullviss að þetta er fljótvirkasta og kannski eina leiðin til að fá nýja ferju til að sigla þessa stuttu siglingaleið frá Vestmannaeyjabæ til Landeyjahafnar þannig að það mikla mannvirki fari að nýtast til fulls, en eins og hefur komið fram var gamla ferjan, þessi stóra ferja, alls ekki hugsuð í þetta verkefni. Hins vegar voru aðilar frá Íslandi á haustdögum 2008, um svipað leyti og hér var allt að hrynja, að semja við þýska skipasmíðastöð um smíði ferju sem var sérhönnuð fyrir höfnina en frá því varð að hverfa.

Ég vil nota tækifærið, virðulegi forseti, til að fagna þessu alveg sérstaklega eins og ég hef gert, en mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra út í fjármögnunina, hvernig við eigum að fjármagna smíði á 4 milljarða kr. ferju eins og ég ímynda mér að hún muni kosta í dag. Hvernig munum við fjármagna það? Leiðin er hárrétt — við þurfum að smíða ferjuna sem fyrst og fá hana í notkun 2015 og borga hana upp á komandi árum þar á eftir — en hvernig munum við fjármagna þetta og á hve löngum tíma munum við borga þetta niður?