140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega fagna samstöðu okkar hv. þm. Kristjáns Möllers um Vestmannaeyjaferjuna og yfirleitt því að við höfum fundið okkur sameiginlega torfu til að standa á, sem okkur tókst bærilega að gera hér á árum áður og eigum samleið tel ég vera í mjög mörgum og veigamestu málum. Hann veltir vöngum yfir því hvernig við munum standa að fjármögnuninni. Nú vil ég leggja áherslu á að þetta eru fyrst og fremst könnunarviðræður sem við erum að hefja núna, ríkið, lífeyrissjóðir og Vestmannaeyjabær.

Lífeyrissjóðirnir hafa ekki gefið neinar skuldbindingar að svo stöddu og reyndar enginn þessara aðila, ekki heldur Vestmanneyjabær, en ríkið á Herjólf sem er nokkurs virði og færi upp í framlag ríkisins gæti maður hugsað sér. Síðan kæmu Vestmannaeyjabær og lífeyrissjóðir. Við sjáum þetta þannig fyrir okkur, ef af þessu yrði, að þegar við erum komin með skip í hendur, nýtt skip sem hentar betur til siglinga á milli lands og Eyja en núverandi skipakostur, muni reksturinn á skipinu verða boðinn út. Það er hugsunin. Fram að þeim tíma eða þar til ferjan kemur á árinu 2015, sem við stefnum að í síðasta lagi samkvæmt okkar áætlunum og óskum, verður siglingin til Eyja boðin út að nýju. Hún er nú í höndum Eimskipafélagsins og mun hugsanlega verða það áfram ef skipafélagið kemur með gott tilboð, enda staðið sig á margan hátt mjög vel í þessu verkefni. (Forseti hringir.) Við munum sem sagt nýta núverandi skip, bjóða það út, núverandi samningur rennur út í maíbyrjun, og brúa þannig bilið.