140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:10]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þar sem hæstv. ráðherra segir að verið sé að skoða þessa möguleika hjá Vegagerðinni að gera láglendisvegi, þvera firði og fara undir Hjallahálsinn þá verð ég að benda á í þessari umræðu að ef menn ætla að halda þá áætlun að koma þessu vegsambandi á á sunnanverðum Vestfjörðum, þó að það sé reyndar 2018–2019, þá vantar reyndar töluverða peninga inn í þessa áætlun ef líka á að leggja göng undir Hjallaháls. Ég minni á samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á þessu svæði sem er náttúrlega alveg vonlaus. Það segir sig sjálft þegar fyrirtæki sem verkar fisk á Patreksfirði kemur fiskinum heim til vinnslu eða tekur hann annars staðar frá degi seinna en til að mynda fyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum sem eru þá búin að koma sínum fiski til útlanda og á markaði erlendis. Þetta sjá allir. Og ef fara á þá leið að hækka auðlindagjaldið mjög mikið, eins og stefnt er að, þá hef ég miklar áhyggjur af því að fyrirtækjum á þessu svæði blæði hreinlega út ef þetta dregst lengur.