140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að reyna að venja mig af því að tala um Hjallaháls og að það hafi verið tillaga til að flýta framkvæmdum einmitt vegna þeirra raka sem hv. þingmaður nefndi hér, til að hraða framkvæmdum. Ég reyni að venja mig af þessu á sama hátt og ég vonast til að aðrir geti vanið sig af því að tala um Teigsskóg. Við erum að reyna að finna lausnir sem mest sátt getur skapast um.

Þetta er alveg rétt sjónarmið sem hv. þingmaður ber fram um mikilvægi þess að hraða framkvæmdum, en ég nefni einn þáttinn sem skiptir líka máli þarna og það eru strandsiglingar sem gætu gagnast þessum svæðum. Nú er það náttúrlega svo að þótt reglulegar strandsiglingar hafi verið lagðar af eru þær enn við lýði, það koma skip og flytja varning og þungavöru, en að koma strandsiglingum í reglulegra horf skiptir máli fyrir íbúa og fyrir fyrirtæki á þessu svæði.