140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[18:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu sína um fjarskiptaáætlun. Öllum er ljóst mikilvægi þess að við höldum áfram að byggja upp gott fjarskiptakerfi allt í kringum landið. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í einn lið í styttri áætluninni, eða reyndar í báðum áætlunum, það er c-liður í 1. markmiðsgrein, um markmið um aðgengileg og greið fjarskipti, sem er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Skilgreindur verði markaðsbrestur í fjarskiptum og leiðir stjórnvalda til úrbóta.“

Mig langar að minnast á eitt dæmi sem er úr Reykjaskóla í V-Húnavatnssýslu. Þar er rekin ferðaþjónusta og skólabúðir og þar er nettenging frá ákveðnu þjónustufyrirtæki. En mikil brotalöm á þeirri nettengingu, kerfið er mjög seinvirkt, mikið er um bilanir, mjög dýrt er að láta laga nettenginguna og það tekur oft langan tíma. Á svæðinu er einnig ADSL-tenging.

Mig langar að vita, vegna umræðu um markaðsbrest, hvort hæstv. ráðherra geti farið aðeins betur yfir hvað hann á við þegar hann talar um að markaðsbrestur verði skilgreindur, hvort þá verði tekið á vandamálum eins og þessum, hvort fyrirtæki og einstaklingar á fjölmörgum svæðum þar sem málum er svona háttað, megi búast við því að tekið verði á vanda þeirra á næstu árum.