140. löggjafarþing — 52. fundur,  1. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[18:39]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt að taka á þessu því að það er algjörlega ótæk staða sem uppi er hjá fjölmörgum heimilum og fyrirtækjum þar sem málum er svona háttað.

Það er annað mál sem mig langaði að koma inn á. Það kemur bæði fram í j-lið 1. liðs þingsályktunartillögunnar og síðan í a-lið 2. liðs, með leyfi frú forseta:

„Innleidd verði eftir þörfum tilskipun ESB varðandi opnun póstmarkaða.“

Og:

„Evrópuregluverk verði innleitt eftir þörfum árið 2012.“

Varðandi póstmarkaðina í j-lið veit ég til þess að í Noregi hafa verið uppi efasemdir um það mál, þ.e. innleiðingu á pósttilskipun Evrópusambandsins. Hafa ríkisstjórnarflokkarnir í Noregi lagst gegn innleiðingu á III. hluta þeirrar áætlunar. Mig langar að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi eitthvað kynnt sér þessi mál, hvernig málin standa þar, og hvort við mundum fylgja Noregi ef Norðmenn gerðu athugasemdir við innleiðingu á þessum pósttilskipunum. Ég tel mjög mikilvægt að við fylgjum þeim vegna þeirra efasemda sem uppi hafa verið um málið því að Ísland og Noregur eru um margt lík lönd, bæði dreifbýl. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann hafi eitthvað kynnt sér þessi mál.