140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

niðurstöður ráðherranefndar um atvinnumál.

[10:48]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það mætti stundum halda að hv. stjórnarandstæðingar fylgdust ekki með því sem er að gerast í samfélaginu. (Gripið fram í: Mjög vel.) Hv. þingmaður segir að það eina sem hafi gerst hér á undanförnum tveimur eða þremur árum í atvinnumálum sé fjölgun aðstoðarmanna. (Gripið fram í.) Hvers lags bull er þetta? [Kliður í þingsal.] Atvinnumálanefndin sem hv. þingmaður nefnir, ráðherranefndin, (Gripið fram í.) hefur starfað síðustu tvö, þrjú árin, nefndarmenn hittast reglulega og fara yfir málin. Síðast hittumst við fyrir örfáum dögum og þá fórum við yfir helstu framkvæmdir hjá opinberum og hálfopinberum aðilum, við fórum yfir það sem fram undan er þar á árunum 2012–2015. Þar eru framkvæmdir upp á 100 milljarða kr. og á næstu árum, 2012–2013, eru það um 50 milljarðar kr.

Við fórum líka yfir allar helstu framkvæmdir sem eru í pípunum hjá hinu opinbera, ýmis fjárfestingarverkefni sem þar eru í gangi. Þar hefur verið gengið frá fjórum fjárfestingarverkefnum. Mikil uppbygging er í augsýn og í undirbúningi fyrir norðan, (Gripið fram í.) í kjördæmi hv. þingmanns, og það eru um 20 fjárfestingarsamningar í undirbúningi eða í gangi. Þar reiknast mönnum til að gangi það allt eftir sé um að ræða um 200 milljarða kr. á næstu missirum og árum og um 1745 ársverk. Það er niðurstaðan af síðasta fundi ráðherranefndar í atvinnumálum, sem hv. þingmaður gerir lítið úr. (Gripið fram í.)

Það er ekki langt síðan fram kom hjá Seðlabankanum að á síðustu 12 mánuðunum hafi störfum fjölgað um 5 þús. Mér finnst að hv. þingmaður eigi ekki að gera lítið úr því. (Forseti hringir.) Þá eru ótalin öll þau verkefni sem við höfum farið í fyrir fólk sem er á atvinnuleysisskrá, sem við höfum komið í nám eða vinnu, það skiptir einhverjum þúsundum. Í guðanna bænum, talaðu nú ekki (Forseti hringir.) eins og þú hafir verið staddur einhvers staðar annars staðar (Forseti hringir.) en á Íslandi síðustu þrjú árin.