140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

niðurstöður ráðherranefndar um atvinnumál.

[10:51]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég var ekki að spyrja um það sem gerst hefur síðustu tvö, þrjú árin. Spurningin var einföld, ég spurði út í nefndarstarf og starf undirhóps um mótun atvinnustefnu og sköpun starfa sem ekki hefur starfað nema í 13 mánuði. Það virðist vera ofverk hæstv. forsætisráðherra að gera grein fyrir störfum og tillögum þessa hóps, hæstv. forsætisráðherra hrærir hér inn einhverjum fullyrðingum langt aftur í tímann sem hún virðist hafa mikla þörf fyrir að ræða. Ég ætla bara að minna hæstv. forsætisráðherra á að stóryrðaglamur er ekki forusta. Ríkisstjórn á að veita landinu forustu með málefnalegri umræðu og svara þeim fyrirspurnum sem til hennar er beint. Í ræðu minni áðan sagði ég að eina tillagan sem borin hafi verið hér á borð væri í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Það er ástæðulaust að detta í (Forseti hringir.) slíkt skens sem hæstv. forsætisráðherra gerir hér. Hæstv. forsætisráðherra á að vanda sig við að gera þinginu grein fyrir störfum þeirrar ríkisstjórnar sem kjörin hefur verið og situr á ábyrgð meiri hluta hér. (Forseti hringir.) Spurningin er einföld: Hverjar eru tillögur þessa undirhóps hæstv. forsætisráðherra sem skipaður var fyrir ári?

(Forseti (ÁRJ): Enn hvetur forseti þingmenn til að virða tímamörk.)