140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

öryggismál sjómanna.

[10:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða við hæstv. innanríkisráðherra um öryggismál sjómanna. Skipum undir 12 metrum er ekki skylt að hafa björgunarflotbúninga um borð, heldur einungis svokallaða vinnuflotgalla sem veita falskt öryggi. Farið hafa fram rannsóknir á því að þeir sem fara í sjóinn í vinnuflotgöllum munu einungis geta lifað þar í um 20 mínútur.

Ég tók þetta mál síðast upp 16. júní 2009 við þáverandi hæstv. samgönguráðherra. Þá átti að skoða málið en ekkert hefur gerst í því síðan. Legið hefur fyrir tillaga frá siglingaráði alveg frá árinu 2004 um breytingar á reglugerð þar sem þetta er gert að skyldu, að öllum skipum sem róa í atvinnuskyni sé skylt að hafa svokallaða björgunarflotbúninga.

Ég vil heyra frá hæstv. innanríkisráðherra hvort hann hyggist nú skrifa undir þessa reglugerð þar sem þetta yrði lögleitt. Það er rétt að árétta að siglingaráð er ráðgefandi fyrir hæstv. innanríkisráðherra um öryggismál sjómanna. Það er mjög mikilvægt að þetta verði gert, sérstaklega í ljósi þess að 1. maí næstkomandi hefjast strandveiðar aftur og þar róa menn við tvísýn skilyrði vegna þess fyrirkomulags sem er á þeim veiðum. Það er skoðun mín að því miður sé ekki spurning um hvort heldur hvenær slys verður.

Því vil ég inna hæstv. innanríkisráðherra eftir því hvort hann hyggist taka þetta mál upp og skrifa undir þá reglugerð sem margsinnis er búið að ítreka og búin er að liggja í ráðuneytinu síðan árið 2004.