140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

afnám verðtryggingar.

[11:00]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla bara að svara þessu með verðtrygginguna, ég ætla að leiða annað hjá mér af því að mér finnst hv. þingmanni ekkert koma við hversu lengi ég er í stól þingmanns eða hve lengi ég starfa fyrir Samfylkinguna. [Kliður í þingsal.] Það eru mínir félagar þar sem ákveða það en hvorki ég né hv. þingmaður.

Varðandi verðtrygginguna held ég að það sé nokkuð breið samstaða um það á þingi að taka á því máli. Efnahags- og viðskiptanefnd er að vinna að því máli undir forustu Helga Hjörvars og skilar væntanlega 15. febrúar. Við skulum sjá hvað út úr því kemur.

Það er ekki eins og ekki hafi náðst áfangar í þessu efni á umliðnum mánuðum. Allir bankar hafa boðið upp á óverðtryggð húsnæðislán um þó nokkurt skeið. Íbúðalánasjóður hefur þegar fengið lagaheimild til að veita óverðtryggð lán og að því er nú unnið að koma því í gagnið. Lífeyrissjóðirnir eru sömuleiðis að skoða það að veita óverðtryggð lán. Heil nefnd undir forustu Eyglóar Harðardóttur fór yfir þetta og þar voru ýmsar leiðir nefndar. Mér fannst ekki par liggja beint við að það ætti endilega að afnema verðtrygginguna, það eru ekki allir sammála um það. Það er ábyggilega spurning fyrir þann sem er að taka lán í dag hvort hann eigi að taka það verðtryggt eða óverðtryggt. Það liggur ekkert á borðinu að óverðtryggð lán séu hagstæðari en verðtryggð.

Staðan er sú að það er verið að vinna að þessu máli í nefnd þingsins og ég bíð eftir að fá niðurstöðu þar. Annars ætti hv. þingmaður að vita að besta leiðin til að afnema verðtrygginguna og koma á viðunandi vaxtakjörum sem eru sambærileg við það sem gerist í Evrópu, og ASÍ hefur reiknað út að fólk hér á landi borgar 5–6% hærri vexti en fólk í Evrópu, (Forseti hringir.) er að ganga í Evrópusambandið. (Gripið fram í.)