140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[11:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það leynir sér ekki að hæstv. innanríkisráðherra hefur verið með miklu gleðibragði þegar hann skrifaði þessi miklu plögg, tillögur til þingsályktunar um tólf ára fjarskiptaáætlun og fjögurra ára fjarskiptaáætlun. Húmoristinn hefur greinilega komið upp í hæstv. ráðherra þegar hann kaus á bls. 6 í tólf ára áætluninni að skrifa, með leyfi virðulegs forseta:

„Góðir innviðir fjarskipta og fjarskiptamála eru mikilvæg forsenda fyrir ýmis áherslumál sem koma fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er m.a. lögð áhersla á að hún“ — þ.e. ríkisstjórnin — „muni beita sér fyrir „opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum“. “ — Ég undirstrika að ríkisstjórnin leggur áherslu á að hún muni beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum.

Það sem ég sakna úr þessum mergjaða texta eru orðin skjaldborgin um heimilin og eitthvað fleira í þeim dúr og auðvitað norræna velferðin. Þegar lestur er hafinn á þessu plaggi, sem annars er nokkuð tormelt vegna þess að í því er eðli málsins samkvæmt fjallað um flókna hluti, er gott að hæstv. ráðherra hefur kosið að reyna að koma manni í gott skap og láta mann hlæja um leið og maður les þennan texta sem er vel skrifaður en um stirfið efni.

Í gær og í síðustu viku ræddum við um aðrar áætlanir, samgönguáætlanir sem hæstv. innanríkisráðherra hefur lagt fram, þ.e. langtímaáætlun og síðan fjögurra ára áætlun um samgöngumál. Þær eru að talsverðu leyti öðruvísi uppbyggðar en þær sem við erum núna að ræða. Í þeim áætlunum er um að ræða verkefnaáætlanir þar sem er nákvæmlega tíma- og tölusett hvert einasta verk, hver brú, hver höfn, hver flugvöllur, hver vegarspotti o.s.frv. Í þessari áætlun er því ekki að heilsa. Þar er uppsetningin önnur eins og hefur verið raunar alveg frá því að slíkar áætlanir komu fyrst fram. Ég hef velt fyrir mér síðustu daga, þegar ég hef farið yfir þessi mál, hvort við ættum að hyggja að því að setja skýrar fram, hvort sem það væri í sjálfri áætluninni eða með einhvers konar fylgigögnum, upplýsingar um þau verkefni sem ætlunin væri að ráðast í þannig að við gætum betur tekið afstöðu til þeirra.

Í þessari ágætu tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára fjarskiptaáætlun er í nokkrum köflum farið yfir markmið um aðgengileg og greið fjarskipti, hagkvæm og skilvirk fjarskipti, örugg fjarskipti og umhverfisvæn fjarskipti. Það er útlistað með orðum en við sjáum samt ekki nákvæmlega með hvaða hætti menn ætla að ná markmiðum sínum um aðgengileg og greið fjarskipti. Verkefnin eru tíunduð í allmörgum liðum en við sjáum ekki hvort ætlunin er að setja upp senda við þjóðveg 1 til að tryggja GSM-sambandið, við sjáum ekki hugmyndir um hvort ætlunin sé að leggja til fjármuni til að fara beinlínis í einhverja uppbyggingu á til dæmis gagnasamskiptum við einstök dreifbýl héruð og þar fram eftir götunum. Ég veit ekki hvort þetta er gerlegt en ég vildi velta því inn í umræðuna til að menn gætu þá hugsað það til lengri tíma, m.a. í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem mér finnst mjög líklegt að muni kalla eftir því frá innanríkisráðuneytinu hvaða áform séu uppi um einstakar framkvæmdir á aðskiljanlegum stöðum í sjálfu sér.

Ég hygg að það sé ekki mikill ágreiningur um markmiðin eins og þau koma fram. Ég rakti þau með þessum almennu orðum og hæstv. ráðherra gerði það líka í sinni ágætu framsöguræðu síðla dags í gær. Markmiðin eru það sem við viljum stefna að.

Ef við veltum almennt fyrir okkur þessari fjarskiptaáætlun vitum við að nánast á hverjum degi eiga sér stað gríðarlegar breytingar á tæknisviðinu. Við settum okkur til dæmis einhver markmið árið 2004 um það hvernig við vildum byggja upp kerfi fyrir gagnaflutninga um landið og settum okkur þar með markmið um það hversu mikinn hraða við vildum hafa, hvað menn gætu glímt við stór skjöl o.s.frv. Það var nokkuð sem menn töldu þá raunhæft og sem menn vildu ná fram. Nú erum við örugglega búin að ná þessum markmiðum og miklu meira en það, en þarfirnar eru sífellt að breytast og við þekkjum það að eitthvað sem svaraði alveg kalli tímans fyrir þremur, fjórum árum á þessu sviði gerir það ekki lengur. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að endurskoða þetta í sífellu.

Að langmestu leyti annast markaðurinn þetta sjálfur. Fjarskiptafyrirtækin sjá sér einfaldlega hag í að geta boðið upp á sem mesta þjónustu til að búa sér til tekjur. Vandinn er hins vegar þar sem markaðsbresturinn verður og þá er þörf á þessum sérstöku fjármunum sem koma í gegnum fjarskiptasjóð sem fjarskiptafyrirtækin borga þó algjörlega. Fjarskiptanotkunin er gjaldstofninn og þess vegna borga fjarskiptafyrirtækin þetta, öllu heldur við notendurnir. Það kemur væntanlega fram almennt í verðlagningunni gagnvart okkur og þess vegna erum það auðvitað við sem að lokum borgum þetta.

Við viljum líka og gerum kröfu til þess að þessi þjónusta sé til staðar alls staðar á landinu alveg sama hvar menn búa. Menn eiga líka erindi út í hinar dreifðu byggðir og nútíminn er þannig að sá sem er þar staddur til lengri eða skemmri tíma þarf á því að halda að geta nýtt sér þessa þjónustu. Hið sama er með GSM-símana og þessa þráðlausu síma. Þegar fólk fer af stað og ferðast um landið sitt reiknar það með því að þjónustan sé til staðar. Ég nefni þetta vegna þess að stundum er látið í veðri vaka, að sjálfsögðu ekki af hálfu hæstv. ráðherra heldur ýmsum öðrum sem tala um þessi mál, að hér sé um að ræða einhverja kvöð sem þeir sem búa í þéttbýli þurfi að standa straum af fyrir einhverja aðra sem búa í dreifbýlinu.

Mjög margar breytingar hafa orðið í þessu starfsumhverfi eins og ég nefndi. Ef við tökum dæmi af póstinum blasir auðvitað við að þar hafa orðið gríðarlegar breytingar og eiga eftir að verða meiri. Í fyrsta lagi hafa þessar rafrænu sendingar gert það að verkum að mjög hefur dregið úr magni póstsendinga sem hefur auðvitað haft áhrif á tekjustreymi Íslandspósts. Íslandspóstur hefur hins vegar þá kvöð núna að þurfa að standa undir alþjónustunni og notar þá það sem er núna einkaleyfavarin þjónusta, þ.e. bréf upp að 250 grömmum, að ég hygg. Þannig var það að minnsta kosti upphaflega þegar við settum þessi lög. Nú eru hins vegar þeir tímar uppi að við sjáum á tölum sem eru meðal annars raktar á bls. 32, að ég hygg, í þessu skjali að talsverður samdráttur er í almennum bréfasendingum. Það hefur áhrif og gerir það að verkum að það verður erfiðara fyrir þetta einstaka fyrirtæki að standa undir þessu, sérstaklega vegna þess að eftir bara 11 mánuði skellur á okkur mikil breyting. Um næstu áramót hverfur sú einkaleyfavarða þjónusta sem Íslandspóstur hefur haft — það eru reyndar, svo ég leiðrétti það, bara í bréfum upp að 50 grömmum — en nú er verið að opna þennan póstmarkað samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Við höfum að vísu fengið undanþágu til næsta árs en eftir það er alveg ljóst, það sjáum við á þeim tölum sem eru reiddar fram í þessu ágæta skjali, að það mun hafa veruleg áhrif á stöðu Íslandspósts sem hingað til hefur borgað og staðið undir þessari alþjónustu.

Því spyr ég hæstv ráðherra: Er farið að hyggja að því með hvaða hætti við bregðumst við? Það er nefnt í þessu skjali að ýmislegt komi til greina. Auðvitað koma til greina einhvers konar ríkisstyrkir, framlög ríkisins, en það getur líka komið til greina sama hugsun og við erum með um fjarskiptasjóðinn, að þá eigi sér stað almenn gjaldtaka hjá þeim aðilum, ekki bara Íslandspósti heldur mögulega öðrum póstfyrirtækjum, sem verði síðan ráðstafað til að tryggja þessa alþjónustu á póstinum. Þannig getum við búið við það, eins og við höfum gert, að hér um bil allir fá sinn póst fimm daga vikunnar. Það er eftirtektarvert að þrátt fyrir allt eru það ekki nema 158 aðilar sem njóta ekki slíkar póstþjónustu. Við finnum stundum að því hjá þeim sem ekki njóta þess, en það verður hins vegar að segjast eins og er að í meginatriðum, með undantekningum, er póstþjónustan mjög góð.

Þá kem ég að fjarskiptunum sjálfum sem við tölum um og þá er ég að tala um bæði símann og tölvufjarskiptin. Þar er gríðarlega mikið verk að vinna. Eins og ég sagði áðan tekur þetta umhverfi mjög miklum breytingum og nýjar þarfir kalla stöðugt á nýjar aðgerðir og nýjar framkvæmdir. Þarna höfum við líka út af fyrir sig náð mjög góðum árangri, því er alls ekki að neita. Það er ekki nema 1% heimila sem er eingöngu með þráðlaust net og 99% heimila í landinu eru með háhraðatengingu. Það sem hins vegar hefur breyst er að þær kröfur sem við vorum með og settum upphaflega og eru grundvöllur alþjónustunnar, og komið aðeins inn á hérna, eru að verða úreltar. Kröfurnar um meiri flutningsgetu og möguleika á að taka á móti og vinna í þyngra umhverfi eru þannig að lágmörkin eru að verða of lág og þá þurfum við að taka afstöðu til þess. Við vitum að svona fjarskiptavinna er grundvöllur þess atvinnulífs sem við erum með í dag. Það er varla til sá atvinnurekstur sem ekki krefst einhvers konar slíkra fjarskipta með tölvupóstssendingum, að vinna í þungum skjölum. Við heyrum oft frá ferðaþjónustu í dreifbýli sem kvartar undan því að bókunarkerfi séu öll orðin það þung að lélegt fjarskiptasamband komi í veg fyrir að fólk geti keppt á þessum sviðum þar sem fjarskiptaþjónustan er veikust. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Kemur ekki til greina núna að hyggja að því að hækka þessi lágmörk um fjarskiptin til að tryggja að við höldum alls staðar á landinu í við þróunina?

Í þessu sambandi er rakið á bls. 37, með leyfi virðulegs forseta:

„Í tengslum við innleiðingu á nýja fjarskiptapakkanum er sú spurning réttmæt hvort tímabært sé að huga að því að endurskilgreina alþjónustu. Sem dæmi má nefna lágmarkshraða internets sem nú er 128 kb/s. Nokkur lönd hafa þegar aukið þennan hraða …“

Með öðrum orðum er þessi þróun greinilega hafin í öðrum löndum og spurning hvort við þurfum ekki að minnsta kosti að fylgja henni þannig að við séum í fremstu röð á þessu sviði, eins og við höfum verið.

Ég nefndi áðan að þetta væri grundvöllur atvinnuþátttöku en ekki bara það, þetta er líka grundvöllur menntunar. Menntun er að færast í auknum mæli í það að vera fjarnám, fólk nýtir sér mikla möguleika í þessu sambandi, ekki síst úti í dreifbýlinu þar sem menntunarframboðið er minnst. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur að þessir hlutir allir saman séu í fullkomnu lagi.

Það er ekki bara það að flutningsgeta þurfi að vera til staðar, að þessar tölvutengingar séu eins góðar og þær þurfa að vera. Annað í þessu sambandi skiptir líka miklu máli og maður verður var við það á þeim stöðum sem búa við lakari þjónustu. Í þessu sambandi vísa ég til spurningarinnar um ljósleiðarahringtengingar. Það getur auðvitað orðið rof á ljósleiðarasambandinu og þá skiptir miklu máli að um sé að ræða hringtengingar. Ég bið hæstv. innanríkisráðherra að veita því athygli núna sem ég segi og í þessu felst spurning. Í dag eru bara tvö landsvæði með yfir 5 þús. íbúa án ljósleiðarahringtengingar, Vestfirðir og Snæfellsnes. Kostnaðurinn við það að ljósleiðarahringtengja Vestfirði og Snæfellsnes er 270 millj. kr. Eru uppi áform á grundvelli þessarar fjarskiptaáætlunar að fara í það verkefni að hringtengja þessi svæði? Fyrir þau er um að ræða gífurlega mikla samkeppnislega spurningu. Meðan þessi staða er uppi er alveg tómt mál að tala um að vera með gagnaver á þessum slóðum sem og ýmiss konar atvinnustarfsemi sem krefst algjörs öryggis á þessu sviði fyrir utan allt annað. Almenningur og fyrirtæki almennt geta þolað einhvers konar skerðingu í einhvern tíma en til langs tíma er það hvimleitt og truflandi.

Í annan stað kemur fram að byggðakjarnar sem eru ekki með svona ljósleiðaratengingu eru ekkert mjög margir og kostnaðurinn við að ljósleiðaratengja ótengda byggðakjarna með einni tengingu er 320 millj. kr. Hér er líka um að ræða býsna mikið hagsmunamál. Ég geri mér grein fyrir að þetta er miklu þyngra varðandi dreifbýlu héruðin en kostnaðurinn er 320 millj. kr. og nú spyr ég hæstv. ráðherra: Eru áform um, á grundvelli þessara tillagna, að fara í að ljósleiðaratengja þessi heimili og skapa þeim sem búa við betra fyrirkomulag þannig sambærileg samkeppnisskilyrði, búsetuskilyrði og lífsskilyrði og aðrir hafa?