140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[11:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er sá sem við vorum að tala um áðan, bæði ég og hv. þingmaður, að landsbyggðin búi við boðlegar háhraðatengingar vegna þess að þessar breytingar eru svo örar. Ef við förum yfir þetta ætla ég að fullyrða að engin atvinnustarfsemi, undantekningarlaust, getur lifað af á Íslandi nema fjarskiptin séu góð. Það er alveg sama hvaða starfsemi það er. Einhvern tíma hefðu menn talið að þeir gætu komist af með sveitasímann, það er ekki þannig. Ef menn ætla að reyna að setja fyrirtæki á laggirnar verða fjarskiptin að vera góð.

Ég held líka að færa megi fyrir því rök að þetta sé í raun enn brýnna á landsbyggðinni en þrátt fyrir allt á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað er þetta alls staðar mikilvægt, en landsbyggðin er auðvitað í þeirri stöðu að þar er lengst í margs konar þjónustu og þá þjónustu reyna menn þá að nálgast meðal annars í gegnum fjarskipti. Þess vegna hygg ég að fjarskiptamálin séu enn þá brýnni, til dæmis fyrir ungt fólk eða fólk sem á efri árum kýs að leita sér menntunar og getur gert það heiman frá sér að miklu leyti. Þá eru þessi atriði mjög þýðingarmikil. Margs konar þjónustu sem fyrirtæki leita eftir er að finna á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna þurfa menn á þessu að halda.

Hér segir í 1. gr., c-lið fjögurra ára áætlunarinnar, með leyfi forseta:

„Skilgreindur verði markaðsbrestur í fjarskiptum og leiðir stjórnvalda til úrbóta.“

Það er síðan gert með orðum í stóru áætluninni. Þar er skilgreint hvað er markaðsbrestur og bent á ýmsar leiðir. Það sem ég held hins vegar að kalla þurfi mjög eftir og þurfi að fylgja áætluninni er að við sjáum þetta skilgreint, verkefni fyrir verkefni.