140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[11:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst spurði hv. þingmaður um hvar ég sæi einstaklingsframtakið í þessari áætlun. Ég sé eiginlega einstaklingsframtakið yfir og allt um kring vegna þess að ég er alveg sammála hv. þingmanni um að uppbygging fjarskipta í landinu mun auðvitað gerast á vettvangi fyrirtækjanna númer eitt, tvö og þrjú. Þannig hefur það líka gerst. Að langsamlega mestu leyti hefur þetta verið markaðsdrifið. Fyrirtækin hafa séð sér hag í því að byggja upp tengingar, byggja upp þjónustu og aðstæður til þess að fólk gæti keypt þá þjónustu, verslað við fyrirtækin, borgað þeim og þannig fá fjarskiptafyrirtækin tekjur.

Við höfum hins vegar viðurkennt að það eru ákveðnir markaðsbrestir vegna sérstöðu landsins. Það höfum við viðurkennt. Við gerðum það við sölu Símans, ákveðið var að fara í sérstaka uppbyggingu og nota söluandvirði Símans að nokkru leyti í það. Það er líka gert með stofnun Fjarskiptasjóðs sem fær tekjur sínar af starfsemi fjarskiptafyrirtækjanna til þess meðal annars að standa undir uppbyggingu á innviðum sem fjarskiptafyrirtækin geta síðan nýtt sér fyrir ákveðna greiðslu til að geta sinnt landinu öllu.

Varðandi hringtengingarnar er þetta út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þingmanni að eftir því sem hringurinn er stærri þeim mun meiri hætta er á einhverjum slysum. Við sjáum hins vegar á því korti sem fylgir á bls. 8 að landið er allt meira og minna hringtengt. Það er meira að segja sérstök lína úr Eyjafjarðardölum og yfir hálendið þannig að mér sýnist nú að jafnvel þó að það færi svo að vestan við Akureyri kæmi rof í ljósleiðarann væru eftir sem áður tvær leiðir fyrir þá sem þurfa að senda frá sér boð frá Akureyri eða til Akureyrar til að flytja eftir. Eftir standa tvö svæði með íbúafjölda yfir 5 þús. manns, (Forseti hringir.) þ.e. Snæfellsnes og Vestfirðir.