140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[12:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir þær áætlanir sem hér eru lagðar fram. Ég vil einnig þakka síðasta ræðumanni, hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir fína ræðu. Ég er sammála mörgu sem fram kom í henni.

Í fyrsta lagi langar mig að nefna það sem kemur fram í fjögurra ára áætluninni á fyrstu blaðsíðu í j-lið — það kann að vera að hann hafi verið nefndur hér fyrr í dag. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Innleidd verði eftir þörfum tilskipun ESB varðandi opnun póstmarkaða.“

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þetta „eftir þörfum“ og væri gott að fá einhverjar skýringar á því.

Síðan stendur á bls. 2:

„Evrópuregluverk verði innleitt eftir þörfum árið 2012.“

Er það þá bara svona eftir hendinni, eins og þörf er á, eða er verið að innleiða einhverjar Evrópureglur, t.d. varðandi póstinn, sem er nefndur hér í stóru áætluninni, er verið að vísa til þess? Það er mjög mikilvægt að vita það. Hér á bls. 20 í stóru áætluninni er talað um póstdreifingu og vil ég koma því hér á framfæri að ég hef miklar efasemdir um þetta. Þar á meðal vil ég benda á að norsk stjórnvöld ætla, alla vega samkvæmt síðustu upplýsingum sem ég hef, sem eru meðal annars frá því í október 2011, í ársfjórðungsskýrslu norska póstsins, sér ekki að innleiða þá Evróputilskipun sem ég held að hér sé um að ræða. Ef það er misskilningur hjá mér þá kemur það fram. Ég tel hins vegar ástæðulaust að vera að markaðsvæða póstinn eitthvað sérstaklega.

Að öðru, það er varðandi landsbyggðina og fjarskiptin, aðgang að nettengingum og öllu því. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér upp úr bréfi sem ég hef í höndunum. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Við höfum verið staðarhaldarar hér í Reykjaskóla frá því að fyrirtæki okkar, Reykjatangi ehf., tók yfir rekstur skólabúðanna 1. ágúst 2003. Við höfum ítrekað frá þeim tíma haft samband við Símann um að fá ADSL-tengingu hingað, þar sem okkar rekstur er mjög háður góðu tölvusambandi, en án árangurs. Í skólabúðirnar koma um það bil 3.000 nemendur á hverjum vetri sem þýðir að við verðum að vera í stöðugu sambandi við skólana sem nemendurnir koma frá um margvíslega hluti, svo sem að senda út öll gögn til skólanna varðandi komu nemendanna til okkar. Einnig er mikið um ráðstefnur og fundi hér um helgar og á sumrin og oftar en ekki er þess krafist að tölvusamband sé gott. Því er fljótsvarað. Mikil brotalöm er á þeirri tölvutengingu sem okkur er boðið upp á“ — ég ætla ekkert að nefna fyrirtækið — „það er seinvirkt og mikið um bilanir og mjög dýrt miðað við annað sem er í boði. Hér á Reykjatanga er einnig ferðaþjónustan á Sæbergi, gróðurhúsið að Reykjum, Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna, auk íbúa á staðnum o.s.frv.“

Þetta er í hnotskurn það sem mjög margir í dreifbýlinu búa við. Það voru skilgreind, og það réttilega, samkvæmt þeim lögum sem þá voru í gildi og eru enn, ákveðin markaðssvæði. Ég held hins vegar, og ástæðan fyrir því að ég nefni þetta, að í tengslum við þá áætlun sem við ræðum hér verðum við að skoða hvaða lagabreytingar þarf að gera til þess að þau fyrirtæki, og þeir einstaklingar sem búa í dreifbýlinu, geti fengið þær tengingar sem þau þurfa á að halda. Það er ekki boðlegt að tengingar séu að detta út í miðju kafi, eða þannig að þegar tveir, þrír eða fjórir eru að hlaða niður gögnum á sama þráðlausa netinu þá bara detti það niður hjá öllum öðrum. Það kemur fyrir að menn þurfi að biðja fólk, sem er til dæmis í Reykjaskóla, að slökkva á tölvum sínum til að hægt sé að ná í gögn eða þegar aðrir þurfa að komast í samband. Þetta er algjörlega óboðlegt, ekki síst þegar örfáir kílómetrar eru í næsta ADSL-box eða tengingu. Það vill þannig til að á Reykjum í Hrútafirði er ljósleiðari í einu húsinu. Ljósleiðari Símans liggur þar og símstöð er inni í húsinu, en þeir mega ekki fá tenginguna vegna þess að á sínum tíma var þetta skilgreint sem markaðssvæði.

Ég ætla ekki að biðja hæstv. ráðherra um nein svör hér. Ég vil bara koma því á framfæri að það er mikilvægt að endurskoða þetta.

Ég ætla að tala stutt um þetta núna, ég tel mikilvægt að við förum vel yfir þetta í nefndinni.

Mig langar hins vegar að biðja hæstv. ráðherra að velta fyrir sér einni spurningu ótengt þessu. Á sínum tíma var Síminn seldur eins og allir vita. Var það mjög gagnrýnt á sínum tíma og höfðu menn ýmsar skoðanir á því. Ég var einn af þeim sem hafði miklar efasemdir um það á sínum tíma að fara þá leið. Það komu töluvert miklir peningar af þessari sölu sem fóru meðal annars í fjarskiptasjóð. Þeir fóru þangað vegna kröfu þingmanna Framsóknarflokksins um að setja yrði peninga í að reyna að bæta tengingar.

Ég vil hins vegar í ljósi reynslunnar velta því upp við hæstv. ráðherra hvort ekki sé full ástæða til að athuga möguleika á því að ríkið eignist aftur grunnnet símans — þá er ég væntanlega að tala um fyrirtækið Mílu, ef ég skil hvernig þessu hefur verið skipt upp, og að þetta verði sett inn í Landsnet eða inn í það fyrirtæki sem sér um rafmagnið og allt þetta, því eins og hér hefur verið bent á er þetta ekki síður mikilvægt í dag en rafmagnið eða heita vatnið. Það á að skoða hvort það getur verið fýsilegur kostur að þessi mikla auðlind sem þarna er um að ræða, þessar mikilvægu tengingar, þessi mikilvægi þáttur í okkar daglega lífi, líkt og rafmagnið, sé á hendi ríkisins.

Ef í þessum orðum mínum felst að þurfa að viðurkenna að hugsanlega hafi það verið mistök að selja þetta á sínum tíma, þá er ég að sjálfsögðu að segja það. Grunnnetið er mjög mikilvægt fyrir okkur öll. Ef við höfum tækifæri til að vinda einhvern veginn ofan af þessu, eins og hefur verið notað hér um aðra hluti, finnst mér að við eigum að skoða það mjög vandlega. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að setjast yfir það hvort þarna sé tækifæri eða hvort möguleiki sé á þessu með einhverjum hætti, í samvinnu við lífeyrissjóði eða eitthvað slíkt. Ég er alla vega þeirrar skoðunar að það sé ekki síður mikilvægt að um þetta gildi þau sömu sjónarmið og varðandi raflínurnar og það.