140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[12:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu sem mér finnst vera mjög málefnaleg. Talandi um fjarskipti, það var einu sinni þannig að ég var námsmaður í Þýskalandi og þá fór ég niður á aðaljárnbrautarstöð til að panta símtal til Íslands. Þar beið maður í tvo klukkutíma eftir því að fá samband og þá kostuðu hverjar þrjár mínútur 20 mörk en framfærslan í heilan mánuð var 600 mörk. Þá voru fjarskipti með þessum hætti og eiginlega enginn námsmaður hafði eigin síma. Núna er maður ekki bara með símann heldur allt netið hér í þessu litla tæki mínu sem er alls ekki einu sinni það dýrasta sem til er. Þetta var um fjarskiptin.

Fjarskipti breyta fjarlægðum gífurlega. Það skiptir í rauninni ekki lengur máli fyrir verkfræðing eða fjármálaráðgjafa eða endurskoðanda hvar hann býr í heiminum, verkfræðingurinn getur tekið þátt í útboði í Sjanghæ og unnið í Svarfaðardal, svo dæmi sé tekið. Það skiptir ekki máli, hann er bara á staðnum í gegnum netið, en til þess þarf hann gott netsamband.

Netið er að þjappa fjarlægðum saman í nánast ekki neitt á meðan orkuverðið er að dreifa þeim. Þetta eru tveir þættir sem vinna hvor gegn öðrum. Við kvörtum mikið undan orkukostnaði en á móti kemur að fjarskiptakostnaðurinn er að lækka mjög mikið og möguleikarnir alltaf að vaxa. Sú tillaga til þingsályktunar sem við höfum fyrir framan okkur er mjög áhugaverð. Það eina sem ég hef við hana að athuga er að þetta er dálítill áætlunarbúskapur og það sem gerist í framhaldinu er að tæknin gjörbreytir þessu. Það sem maður óttast er að ríkisvaldið einblíni of mikið á einn þátt, eins og mér finnst það gera í ljósleiðaravæðingunni, og það getur útilokað aðra þróun sem kemur og verður kannski miklu betri. Ég vara menn við því að einblína of mikið á einn þátt og ég vara menn líka við því að hafa of mikil opinber afskipti. Þau eru umtalsverð eins og ljósleiðaravæðingin ber vitni um.

Ég held að þessi þróun í samskiptum — þetta eru ekki lengur símatengingar, þetta er orðið miklu, miklu meira — muni auka arðsemi fyrirtækja og allrar starfsemi hvar sem er og hún muni þjappa landinu saman en til þess þurfum við að tryggja að menn búi alls staðar við sambærilega stöðu. Í ferðaþjónustu, við bókanir og annað slíkt, hefur orðið bylting frá því sem áður var, algjör bylting. Þetta á eftir að verða miklu meira í framtíðinni en hefur verið hingað til og við munum sjá miklar breytingar í þessu. Ég býst við að þróunin muni eða ég vona alla vega að hún muni ekki fara nákvæmlega eftir þessari þingsályktunartillögu eða áætlunargerð því að þróunin er algjörlega sjálfstæð og mun væntanlega geta gert miklu betur en áætlunin gerir ráð fyrir.