140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[12:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum ekki tekið ákvörðun um hvaða skref við stígum. Við byrjum á því að fara að dæmi Norðmanna og skoða með hvaða hætti við getum komið þjónustutilskipuninni á sviði póstmála undan EES-samningnum. Við munum að sjálfsögðu hafa hliðsjón af því starfi sem Norðmenn vinna. Í raun búum við við nokkuð svipaðar aðstæður að ýmsu leyti og kannski enn betri aðstæður vegna þess að við fengum undanþágu frá innleiðingu pósttilskipunarinnar. Við gátum fengið frest til tveggja ára á grundvelli þess að Ísland er fámennt og dreifbýlt land. Það fengu Norðmenn ekki. Þeir eru þess vegna að reyna að finna leiðir út úr þessum vanda með því hreinlega að koma þessari tilskipun undan EES-samningnum. Það er á þeim forsendum sem ég vil láta skoða þessi mál.

Við munum að sjálfsögðu horfa til þess sem kemur út úr viðræðunum við Norðmenn, en fyrsta skrefið hefur þegar verið stigið, þ.e. við höfum tekið ákvörðun eða ég hef gert það fyrir hönd innanríkisráðuneytisins að í þessum samningaviðræðum reisum við þá kröfu að pósttilskipunin verði tekin til endurskoðunar.