140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[12:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en hæstv. ráðherra notaði tækifærið og fór í andsvar við mig í ræðu, sem er mjög óvenjulegt. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að miðstýrð áætlanagerð beið heldur betur skipbrot í Sovétríkjunum. Ég hélt að menn væru komnir út úr þeim fasa að ætla að láta einhverja embættismenn stýra öllu kerfinu. Ég var að vara við því.

Ég tel að sala Símans á mjög háu verði, 60 milljarða á þeim tíma, sem hefur sýnt sig að var allt of hátt verð, hafi verið til góðs. Ef Síminn hefði verið ríkisfyrirtæki allan tímann hefði hann notið velvildar ríkisvaldsins á öllum sviðum, en af því að hann var orðinn einkafyrirtæki gat ríkið beitt sér gegn honum á vissum sviðum. Það hefði orðið til mikils tjóns ef Landssíminn hefði enn verið ríkisfyrirtæki, svo að ég tali ekki um ef Búnaðarbankinn, Útvegsbankinn og allir þessir bankar hefðu enn verið ríkisfyrirtæki með stjórnmálamönnum í stjórn.

Ég bendi hæstv. ráðherra á að miðstýrð áætlanagerð beið skipbrot í Sovétríkjunum og ég held að það detti ekki nokkrum manni í hug að innleiða hana nema núverandi hæstv. ríkisstjórn, sem er að innleiða vinstri stefnu á öllum sviðum og keyra allt í kyrrstöðu og stöðnun hér á landi, þar á meðal hæstv. ráðherra. Ég ætla að benda honum á það að þessi stefna beið skipbrot.