140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[12:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

Með frumvarpi þessu, sem einnig var lagt fram á 139. löggjafarþingi, legg ég til að sett verði á fót samgöngustofnun undir heitinu Farsýslan sem sinni stjórnsýslu og eftirliti á sviði samgöngumála. Stofnun hennar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslustofnun, hins vegar framkvæmdastofnun undir heitinu Vegagerðin sem sinnir framkvæmdum á sviði samgöngumála.

Stofnanirnar verða reistar á grunni núverandi samgöngustofnana, þ.e. Siglingastofnunar Íslands, Flugmálastjórnar Íslands, Umferðarstofu og Vegagerðarinnar. Samhliða þessu frumvarpi er flutt frumvarp um Vegagerðina.

Endurskipulagning samgöngustofnana á sér nokkurn aðdraganda sem ég tel rétt að reifa stuttlega í byrjun. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá því í júní 2008 „Samgönguframkvæmdir – Stjórnsýsluúttekt“ voru settar fram tillögur um breytt stofnanakerfi samgöngumála þar sem lagt var til að settar yrðu á fót tvær stofnanir, þ.e. stjórnsýslustofnun og framkvæmdastofnun ásamt ríkisfyrirtæki á sviði rekstrar- og viðhalds.

Í janúar 2009 var skipuð nefnd um framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Nefndin skilaði skýrslu sinni „Framtíðarskipan stofnana samgöngumála. Greining og valkostir“ í lok júní 2009. Þar voru kynntir fimm valkostir um stofnanaskipan, auk tillagna og ábendinga um meiri samhæfingu í samgöngumálum, t.d. um að bæta verklag við undirbúning samgönguáætlunar og efla stefnumótunarhlutverk ráðuneytisins.

Að vel athuguðu máli og með hliðsjón af tillögum nefndarinnar og Ríkisendurskoðunar var ákveðið að hefja undirbúning að myndun tveggja stofnana í samræmi við einn valkosta nefndarinnar.

Skipaður var stýrihópur til að vinna nákvæma greiningu á kostum endurskipulagningarinnar og leggja fram tillögur um breytta stofnanaskipun samgöngumála.

Í starfi stýrihópsins var lögð áhersla á samstarf og samráð við stofnanir og að halda vel á starfsmannaþætti breytinga.

Á vegum stýrihópsins hafa starfað sjö vinnuhópar skipaðir starfsmönnum stofnana og ráðuneytis sem unnu að greiningu og útfærslu einstakra þátta.

Stýrihópurinn mun áfram vinna að undirbúningi sameiningarinnar. Stefnt er að því að sameina sem fyrst höfuðstöðvar hvorrar stofnunar fyrir sig í húsnæði, enda er slíkt forsenda þess að áform um hagræðingu nái fram að ganga.

Með sameiginlegri samgönguáætlun allra samgöngugreina var mótuð ný sameiginleg framtíðarsýn þar sem litið er á samgöngugreinarnar sem eina heild með sameiginleg markmið. Þar er mörkuð stefna um sameiginlega áætlanagerð og stefnumótun fyrir allar greinar samgangna, samræmda forgangsröðun, hagkvæmari notkun fjármagns og mannafla. Þar er jafnframt horft til þriggja meginviðfangsefna: Í fyrsta lagi samgöngukerfisins, í öðru lagi stjórnsýslu og eftirlits og í þriðja lagi starfsemi sem nýtir samgöngukerfið. Samgönguáætlun hefur náð fram að ganga, en samgöngustofnanirnar og skipulag þeirra endurspegla enn fyrra umhverfi. Mikilvægt er að samgöngustofnanir þjóni nýjum markmiðum og nýrri hugsun.

Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að gera þurfi umtalsverðar umbætur og breytingar á stjórnkerfinu til að nýta takmarkaða fjármuni eins vel og unnt er en jafnframt með það að markmiði að stjórnsýsla og þjónusta hins opinbera við almenning og atvinnulíf verði eins góð og kostur er. Verulegum hluta ríkisútgjalda á næsta ári verður að ná með aukinni hagræðingu í rekstri ríkisins, svo sem með endurskipulagningu stofnanakerfis og opinberrar þjónustu.

Endurskipulagning samgöngustofnana getur bæði falið í sér faglegan ávinning og rekstrarhagræðingu.

Faglegur ávinningur liggur einkum í bættum möguleikum stofnana til að sinna hlutverki sínu í samfélaginu og bregðast við breyttum kröfum til starfsemi þeirra. Aðgreining stjórnsýslu frá framkvæmdum og rekstri mætir innlendum og erlendum kröfum um faglega og hlutlausa stjórnsýslu og tryggir að sambærilegar kröfur séu gerðar til framkvæmda og rekstrarmannvirkja og annarra þátta samgöngumála. Aukin samþætting þvert á samgöngugreinar endurspeglar heildstæða samgönguáætlun og leggur áherslu á hagkvæmni og virkni samgöngukerfisins fremur en þær leiðir sem bundnar eru einstökum samgöngugreinum. Sérhæfing stofnana gefur færi á að efla vinnubrögð, fagmennsku og árangur til dæmis á sviði stjórnsýslu og framkvæmda.

Hagræðing samfara endurskipulagningu bætir möguleika stofnana til að taka á sig lækkun útgjalda án skerðingar þjónustu. Reynslan sýnir að stórar stofnanir hafa yfirleitt hlutfallslega lægri kostnað vegna rekstrar, þjónustu og yfirstjórnar en litlar stofnanir. Greining á verkferlum samgöngustofnana sýnir að þeir eru í mörgum tilfellum sambærilegir milli stofnana og að samþætta megi ýmsa þætti starfsemi núverandi stofnana í nýjum stofnunum. Starfsemi utan kjarnaviðfangsefna tekur oft mikla athygli frá meginhlutverki og því stuðlar einfalt og skýrt hlutverk að markvissari stjórnun og starfsemi.

Hagræðing í rekstri er ekki einungis fjárhagsleg spurning, heldur snýst hún einnig um pólitískar ákvarðanir um fjárhagslegan ramma stofnunar og með hvaða hætti yfirstjórn stofnunar starfar innan þess ramma. Útreikningar um hagræðingu geta leitt líkur að því hvaða rekstrarlegir og fjárhagslegir möguleikar eru fyrir hendi en hin eiginlega hagræðing byggist á skýrum pólitískum skilaboðum til stofnana ásamt vilja og eftirfylgd stjórnenda þeirra.

Við myndun Farsýslunnar er verið að sameina tvær heilar stofnanir auk hluta úr tveimur öðrum og má segja að þetta samsvari sameiningu þriggja stofnana.

Ýmsir útreikningar hafa verið gerðir á því hvað þetta kæmi til með að spara þegar upp er staðið en við skulum minnast þess að á undanförnum árum hafa fjárveitingar til þessara stofnana verið skornar verulega niður. Sameining þeirra mun gera þeim kleift að vinna betur úr þeirri erfiðu stöðu sem þær eru í eins og reyndar öll stjórnsýsla á Íslandi núna er eftir það aðhaldstímabil sem við höfum lifað síðustu missirin og árin.

Hægt er að ná fram útgjaldalækkun með niðurskurði annars vegar og með hagræðingu hins vegar. Þetta er leiðin til þess að standa vörð um þjónustuna, verja störfin, þ.e. leggja áherslu á hagræðingu og nýta tækifæri sem hún býður upp á í stað þess að ráðast í niðurskurð.

Ég vil minna á annað líka að þegar menn eru að ræða þessi mál hættir þeim til að horfa á stofnanaþáttinn, stofnanirnar. Á að leggja þessa stofnun niður eða hina? Á hún að starfa á annarri hæðinni í byggingunni eða þriðju eða fjórðu? Þetta eru aukaatriði. Það sem máli skiptir er starfsemin sem fer fram innan veggja stofnunarinnar á hvaða hæð sem hana er að finna í húsinu. Það sem við erum að gera er að reyna að samnýta kraftana betur, verja starfsemina og efla hana. Þess vegna hef ég oft varað við því í tengslum við þessa umræðu um breytingar á stofnanakerfinu að við horfum um of í sparnaðarþáttinn. Það er langtímaverkefni, það er til langs tíma og þær verða öflugri til langs tíma með því að gera hlutina á markvissari hátt og nota peningana á markvissan hátt.

Við eigum að horfa á hvort við getum með því að samnýta kraftana gert starfsemina öflugri. Það er það sem við eigum að hugsa. Við erum að fara inn í breyttan heim og hann er breyttur að því leyti að við erum farin að horfa til samgangna heildstætt hvar sem þær eru, hvort sem þær eru á sjónum, á vegunum eða í loftinu.

Eins og ég gat um í upphafi míns máls höfum við stigið ákveðin skref í að samþætta alla áætlanagerð þannig að hún talist við. Samgönguáætlun, samgönguráð sem kemur að henni upphaflega, er með fulltrúa úr öllum þessum öngum stjórnsýslunnar. Við erum einfaldlega að samhæfa og stuðla að því að þessir kraftar vinni betur saman.

Ég mun nú stuttlega gera grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins.

Í fyrsta lagi eru í 3. gr. felld niður ákvæði gildandi laga um hafnaráð, siglingaráð og flugráð. Í stað hinna lögbundnu ráða er lagt til að ráðherra skipi fagráð eins og þörf krefur hverju sinni, auk hins almenna samráðs stofnunarinnar við aðrar stofnanir, hagsmunaaðila og almenning um þau verkefni sem stofnuninni eru falin.

Ég legg áherslu á að áfram verður efnt til samráðs en við viljum ekki vera bundin í tiltekið form, heldur horfa aftur til markmiðanna, til hins breytilega samfélags sem við lifum í og hafa sem allra best tengsl við það hverju sinni.

Í öðru lagi er í 4. gr. það nýmæli að fela stofnuninni að setja reglur um gerð og búnað ökutækja, skipa og loftfara, svo og um hæfi stjórnenda þeirra, og annast eftirlit með framkvæmd þeirra ásamt því að setja öryggiskröfur um samgöngumannvirki og kveða á um skipulag umferðar- og leiðsögukerfa í lofti og á láði og legi.

Í þriðja lagi er í 5. gr. Farsýslunni falið eftirlit með framfylgd krafna um annars vegar öryggi samgöngumannvirkja og hins vegar öryggisstjórnun við rekstur þeirra. Þá er lagt til að stofnunin annist úttekt á öryggisatriðum samgöngumannvirkja sem framkvæmdastofnun á sviði samgöngumála hefur byggt.

Í fjórða lagi er það að nefna að þau verkefni sem stofnuninni er falið að sinna og upp eru talin í 7.–11. gr. eru sömu verkefni og þær stofnanir sem felldar verða undir Farsýsluna sinna í dag.

Í fimmta lagi er í III. kafla laganna fjallað um gjaldtökuheimildir stofnunarinnar og möguleika hennar til að afla sér tekna. Ekki eru gerðar stórvægilegar breytingar á gjaldtökuheimildum stofnunarinnar frá því sem í dag gildir um þær stofnanir sem felldar eru undir Farsýsluna.

Ég hef nú rakið helstu efnisatriði frumvarpsins og vil ítreka að markmiðin með endurskipulagningu samgöngustofnana eru:

1. Auka faglegan styrk.

2. Skýra verkaskiptingu, bæta þjónustu og árangur.

3. Efla, einfalda og auka gagnsæi stjórnsýslunnar.

4. Tryggja markvissara samráð við hagsmunaaðila.

5. Efla samgönguáætlun og tryggja markvissa framkvæmd hennar.

6. Auka hagkvæmni og bæta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til samgöngumála.

7. Samþætta þróun og rannsóknir á sviði samgöngumála.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.