140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[12:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann segir hér að þessi mál hafi verið skoðuð. Ég verð að segja að ég er verulega hugsi yfir því hvernig það hefur farið fram. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu voru hv. þingmenn sem sátu í samgöngunefnd sammála um að það væri skynsamlegra að taka stærri skref, að sameina frekar en gert er ráð fyrir hér. Auðvitað þekkjum við öll hvað mun gerast ef menn fara að stíga eitt skref núna og svo annað eftir mjög stuttan tíma. Það kostar fullt af peningum og mikið óhagræði. Það er mikið skynsamlegra að fara hina leiðina.

Þess vegna verð ég að lýsa undrun minni á því ef það hefur verið niðurstaða ráðuneytisins að það sé ekki skynsamlegra að stíga stærra skref eins og hv. samgöngunefnd var sammála um og nánast allir, held ég að ég geti fullyrt, umsagnaraðilar sem komu fyrir nefndina og fóru yfir þessi mál. Það er líka niðurstaðan í skýrslu sem skilað var til samgönguráðherra á sínum tíma að sá kostur sem hér er lagður til sé síðri en sá að fara í stærri sameiningu. Ég mun að sjálfsögðu fara betur yfir það í ræðu minni á eftir hvaða möguleikar liggja þar og líka að í niðurstöðu nefndarinnar sem hægt er að lesa í meirihlutaálitinu sem lagt var fram í þinginu í maímánuði á síðasta ári var sú leið einmitt vörðuð þar. Það var í raun og veru niðurstaðan og því kemur verulega á óvart að yfirferð ráðuneytisins frá þeim tíma að málið dagaði uppi sé með öðrum hætti.

Ég hefði áhuga á að heyra þau rök og hvað í raun og veru brást þar, því að allar vísbendingar, nánast allar umsagnir, og mjög vönduð og mikil yfirferð samgöngunefndar á sínum tíma voru einmitt í þá veru að fara bæri í frekari sameiningar. Ég kalla eftir því að hæstv. ráðherra komi í andsvör við mig á eftir og fari betur yfir rök ráðuneytisins fyrir þeirri stefnubreytingu sem (Forseti hringir.) varð í ráðuneytinu.