140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[13:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki geri ég lítið úr þeim faglega ávinningi sem á að nást með sameiningu stofnananna. Ég hef reyndar enga sérfræðiþekkingu á því sviði en hins vegar verð ég að benda á að það kom fram í umsögnum og á fundum nefndarinnar í samtölum við gesti að menn settu ákveðna fyrirvara við þær faglegu forsendur sem þar voru gefnar. Til að mynda gagnvart verkferlum kom fram að breytingin gæti hugsanlega leitt til tvíverknaðar og svo fram eftir götunum og þannig mætti lengi telja. Ég þykist vita að þeir sem hafa unnið frumvarpið áfram í innanríkisráðuneytinu hafi lesið vel yfir þær umsagnir sem komu um málið í meðförum nefndarinnar.

Mig langar hins vegar að nota þann stutta tíma sem ég á eftir til að spyrja hæstv. ráðherra um hvort á einhverjum stigum málsins, þegar það var skoðað í meðförum ráðuneytisins, frá því í vor og þangað til það var lagt aftur fram núna — af því að eins og ég er búinn að margítreka tel ég vera skýran vilja til að skoða meiri og frekari sameiningar — hafi einhvern tíma komið fram þessar ráðuneytishindranir sem menn höfðu áhyggjur af, hvort einhvern tíma hafi komið upp í meðförum málsins við endurskoðun þess að flytja það óbreytt en ekki ganga lengra eins og ég tel að eigi að gera, hvort þessar girðingar hafi einhvern tíma komið upp því að menn töldu að þær mundu falla með þeirri breytingu sem gerð var á Stjórnarráðinu sl. haust. Nú hafa þær tekið gildi þannig að það ætti ekki að vera nein hindrun, ekki nema, eins og haldið var fram, að þetta væri aðferð hæstv. forsætisráðherra til að losna við Jón Bjarnason, hæstv. fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eina markmiðið hefði verið að taka ákveðna málaflokka frá honum í þessari vegferð. Hæstv. forsætisráðherra gekk að sjálfsögðu mun lengra, eins og svo oft áður, og hrakti hann endanlega út úr ríkisstjórn. Mig langar til að kalla eftir þessu. Komu þessar ráðuneytisgirðingar einhvern tíma upp í meðförum innanríkisráðuneytisins í málinu núna í sumar?