140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:07]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara efnislega djúpt í fyrirspurnir varðandi þetta mál. Mig langar hins vegar að velta upp því sem kemur fram í markmiðskaflanum með þessari lagasetningu og þessum breytingum.

Staðreyndin er sú að margar þær stofnanir sem heyra þarna undir eru með starfsstöðvar vítt og breitt um landið. Við höfum mátt horfa upp á að opinberum störfum vítt og breitt á landsbyggðinni hefur fækkað mjög mikið á undanförnum árum og áratug. Mig langar að velta því upp við hæstv. innanríkisráðherra hvort það hafi verið skoðað við vinnslu þessa frumvarps að fáar stofnanir, að ég held, séu betur fallnar undir þann möguleika að verða fluttar út á land.

Við höfum séð að það hefur gefist vel að flytja stofnanir út á land. Þar má nefna til að mynda Matvælastofnun, Landmælingar, ákveðna þætti á Hvammstanga, Fæðingarorlofssjóð og svona gætum við áfram talið. Mig langaði að velta því upp við hæstv. innanríkisráðherra hvort hann teldi ekki mögulegt að þessi nýja stofnun mundi í tímans rás, þ.e. að tekin yrði um það markviss ákvörðun núna að eftir ákveðinn fjölda ára yrði hún staðsett á landsbyggðinni, verða flutt út á land og hvort ráðherrann væri tilbúinn að beita sér fyrir því eða gegn því að eitthvert slíkt ákvæði yrði sett í þessi lög. Nefndin færi þá ofan í það með hvaða hætti það væri mögulegt.

Ríkisstjórnin hefur talað um mikilvægi þess að flytja störf út á land. Við höfum séð það í Noregi og víðar að það hefur gefist mjög vel þar sem byggðastefna er markviss og markvisst unnið að því að flytja opinber störf út á land. Er hæstv. innanríkisráðherra hliðhollur því að til að mynda þessi stofnun verði flutt út á land? Mundi ráðherrann leggjast gegn því í meðförum þingsins ef sett yrðu inn einhver ákvæði til lengri tíma um það og nefndin mundi skoða möguleikann á því að stofnunin yrði staðsett úti á landi?