140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við viljum efla þjónustukjarnana á landsbyggðinni. Þetta er auðvitað alveg hárrétt og um það eru allir sammála. Hins vegar hefur þróunin verið sú að starfsemi hefur almennt flust frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Hugmyndin um að byggja upp ákveðna þjónustu á ákveðnum svæðum er góðra gjalda verð. Hins vegar hefur þróunin verið sú að stjórnsýslan og umgjörðin hefur ekki af sjálfsdáðum flust út á land. Staðreyndin er sú að það hefur þurft pólitískar ákvarðanir til að flytja stjórnsýslustofnanir út á land.

Mig langar aftur að beina þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra hvort hann telji ekki mögulegt, samhliða því sem byggðir eru upp þjónustukjarnar allt í kringum landið, að grunnstofnanir líkt og Matvælastofnun, Matvælastofnun er grunnstofnun sem er staðsett á Selfossi en svo þjónustar hún og heldur uppi þjónustu vítt og breitt um landið, verði fluttar út á land, eins og gert hefur verið með Matvælastofnun og Landmælingar, og þeim verði stýrt þaðan og að tekin verði meðvituð ákvörðun á Alþingi um að stíga það skref sem geti síðan tekið einhvern árafjölda. Við getum kannski gefið okkur fimm ár í að flytja stofnunina út á land, en að stefnan verði sú að þessi nýja stofnun, Vegagerðin, verði staðsett úti á landsbyggðinni og að sjálfsögðu verði tryggð þjónusta allt í kringum landið, á höfuðborgarsvæðinu líkt og á landsbyggðinni. Er hæstv. innanríkisráðherra mótfallinn því að stofnunin sjálf verði flutt út á land og þaðan verði henni stýrt?