140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er andvígur því að binda það í lög að stjórnsýsla eða tilteknir kjarnar í starfsemi skuli vera á einum stað fremur en öðrum. Hæstv. utanríkisráðherra gaukaði því að mér hér í hliðarsal að það væri bundið í stjórnarskrá Íslands að Alþingi skyldi vera í Reykjavík. Viljum við hafa það um Alþingi eða viljum við hafa það um … (Gripið fram í.) — Við erum tilbúin að taka það að okkur í Norðvesturkjördæmi, segir hv. þingmaður.

Að öllu gríni slepptu tel ég rangt að binda það í lög að þjónustukjarni í tiltekinni starfsemi skuli vera á einum stað en ekki öðrum. Ég vek athygli á því, af því að við erum að tala um Vegagerðina, að aðalþunginn í starfsemi Vegagerðarinnar í mannskap og tækjakosti og öðru er á landsbyggðinni, er utan Reykjavíkur. Hér erum við væntanlega að tala um stjórnsýsluþáttinn og þótt ég sé alveg sammála megináherslum hv. þingmanns, sem snúa að því að efla opinbera starfsemi á landsbyggðinni og efla landshlutasamtök og samgöngur og þjónustustarfsemi, er ég ekki á sama máli og hann um að það eigi að binda það í lög að þjónustukjarninn skuli vera á einum stað en ekki öðrum.