140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með það sem síðustu hv. ræðumenn fjölluðu um, þ.e. hvort hæstv. ráðherra sé tilbúinn að taka ákvörðun um að færa til dæmis Vegagerðina eða stjórnsýslustofnanir út á land. Hæstv. ráðherra er nú eldri en tvævetur og veit hvernig hann á að komast fram hjá því að svara spurningum beint. Hann sagði að hann vildi ekki setja það í lög. Þá einfalda ég spurninguna og spyr hæstv. innanríkisráðherra: Er hann tilbúinn að taka pólitíska ákvörðun um að setja stofnanir út á landsbyggðina?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það sem fram kemur í greinargerð með þeim frumvörpum sem við ræðum hér — þó að við ræðum Vegagerðina núna og Farsýsluna á undan eru það auðvitað samtvinnuð mál. Við áttum töluverð orðaskipti um þann grunn sem liggur að baki hagræðingunni sem á að hljótast af þessu. Fram kemur í textanum að búa á til tvær stofnanir, spara um 11% af heildarframlaginu, 50% af yfirstjórn, en ekki kemur fram hvernig það skiptist á milli Farsýslunnar og Vegagerðarinnar. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort honum finnist það eðlilegt, þ.e. að ekki liggi fyrir í hvaða viðkomandi stofnunum eigi að spara fjármuni.

Síðan er vakin athygli á því í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að með breytingum á þessum lögum, sem ég átta mig ekki á hvenær voru útbúin vegna þess að þar var reiknað með því að lögin tækju gildi 1. janúar 2012 og ég átta mig ekki á hvenær þetta er skrifað, er gert ráð fyrir að farið verði í hækkanir á gjöldum á umferðaröryggisgjaldi og útgáfu lofthæfisskírteina sem auka eiga tekjurnar um 37 milljónir, sem eiga reyndar að fara í þá stofnun. Því er spurning mín til hæstv. ráðherra: Eru þessar hækkanir komnar fram? Tóku þær gildi um síðustu áramót?