140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sífellt að verða bjartsýnni um meðferð þessa máls vegna þess að hæstv. ráðherra lofar að þeim upplýsingum sem liggja að baki hagræðingunni verði komið skilmerkilega til nefndarinnar. Ég dreg það ekki í efa eina sekúndu vegna þess að ég þekki hæstv. ráðherra ekki að öðru. Það er mjög sérkennilegt að búa til tvær nýjar stofnanir og vera alveg með hreina sýn á hvernig þær eiga að vera, annars vegar stjórnsýslustofnun og hins vegar Vegagerðina, en samt segi í frumvarpstextanum: Við vitum að við spörum 11% af heildarframlögunum en við vitum ekki hvernig það skiptist á milli stofnana. Það finnst mér vera ákveðin þokusýn, það er mjög mikilvægt að það komi fram.

Síðan verð ég þá að ítreka spurninguna frá hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni um hvort hæstv. ráðherra mundi styðja það að önnur hvor þessara stofnana eða jafnvel báðar færu út á landsbyggðina. Hæstv. ráðherra er nú, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu, eldri en tvævetur og vék sér fimlega undan því að svara þeirri spurningu þar sem hann vildi ekki binda þetta í lög, og fór krókaleiðir og benti á ákveðnar stofnanir sem bundið væri í lög að væru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

Þess vegna ítreka ég spurninguna: Er það vilji hæstv. ráðherra að taka pólitíska ákvörðun um þetta mál? Það er eitt að tala um að færa einhverjar stofnanir út á landsbyggðina, en svo þegar tækifærin koma þá er ekki heppilegt að flytja þessar stofnanir, það verða að vera einhverjar aðrar. Við þekkjum þessa umræðu mjög vel, þingmenn sem koma af landsbyggðinni og auðvitað fleiri, og ég er ekki að saka hæstv. ráðherra um að hafa haldið þessum sjónarmiðum fram áður enda er hann búinn að vera frekar stutt í stóli ráðherra og dálítið slitrótt. Ég kalla eftir því hvort hann telji það koma til greina að taka einfaldlega pólitíska ákvörðun um að flytja stofnanir út á land. Nú er tækifærið, nú er lag. Mundi það þá ekki verða skoðað hvort fjárhagslegur ávinningur gæti jafnvel orðið meiri við að flytja fyrirtæki út á land?