140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:23]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég dreg, líkt og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, í efa þær miklu hagræðingarkröfur sem talað er um í þessu. Ég ætla, án þess að fara „díteilerað“ ofan í þetta að halda aðeins áfram með umræðuna um … (Utanrrh.: Hvaða mál var þetta sem þingmaðurinn var að tala?) Vegagerðina. (Utanrrh.: Díteilerað?) Þetta var ekki góð íslenska.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega ofan í öll efnisatriði og orðalag þessarar tillögu til þess að þóknast hæstv. utanríkisráðherra, sem er mikill áhugamaður um íslensku, (Utanrrh.: Við tölum enga brusselsku hér.) en ég ætla að fara almennt í þá umræðu sem snýr að möguleikanum á því að flytja ríkisstofnanir út á land.

Nú þegar þetta frumvarp liggur frammi hafa margir haft áhyggjur af orðrómi um að þessar hagræðingar muni leiða til þess að undirstofnunum og starfsstöðvum verði lokað vítt og breitt um landið í nafni hagræðingar, að til þess að einhver hagræðing verði af þessu frumvarpi þurfi í tímans rás að fækka og loka starfsstöðvum og þjónustukjörnum vítt og breitt um landið.

Taka má nýlegt dæmi. Við, þingmenn Norðvesturkjördæmis, áttum góðan fund með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga í Norðurlandi vestra í gær þar sem fjallað var um þessi mál. Samantekt sem þessir menn hafa tekið saman sýnir að opinberum störfum í Norðurlandi vestra hefur fækkað um 60 á síðustu þremur árum. Þrátt fyrir að menn tali um að verið sé að efla þjónustu og því um líkt á þessu svæði hefur fækkað um 60 störf í ekki fjölmennara byggðarlagi en Norðurlandi vestra.

Þegar talað er um að efla þjónustukjarnana er átt við, eins og hæstv. innanríkisráðherra kom inn á áðan, að miðstjórnin sé á einhverjum ákveðnum stað og þeir sem ráða þar för draga alla jafna til sín starfsemina af landsbyggðinni. Það er ekkert sjálfgefið að miðstjórnin og stjórnsýslan í kringum hana þurfi endilega að vera í Reykjavík. Við sjáum til að mynda að flutningur Matvælastofnunar á Selfoss hefur gefið góða raun. Miðstjórnin er þar og síðan er þjónustan vítt og breitt um landið, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víða annars staðar.

Þetta er kjarninn í byggðastefnu víða annars staðar. Við getum til að mynda horft til Noregs í þeim efnum. Við eigum að ráðast í það núna að taka fyrir ákveðnar stofnanir og taka pólitískar ákvarðanir um að viðkomandi stofnanir verði fluttar út á land. Ef ekki verður gripið til einhverra aðgerða í þá veruna samhliða öðrum byggðaaðgerðum er ljóst að landsbyggðin mun bara halda áfram að veikjast. Það heyrast sömu raddir allt í kringum landið og opinberum störfum fer áfram fækkandi. Menn velta fyrir sér: Af hverju má ekki eitthvað af stjórnsýslunni vera á þessu landshorni? Hvað er svona sjálfgefið við að stjórnsýslan þurfi öll að vera staðsett í höfuðstaðnum?

Við ræddum fjarskiptaáætlun áðan. Allir þingmenn sem töluðu voru sammála um að fjarskipti hér væru með því besta sem gerist í heiminum og sú áætlun sem við legðum upp með gerði ráð fyrir mjög bjartri framtíð í þeim efnum. Það var enginn pólitískur ágreiningur um það mál er heitið getur. Megnið af stjórnsýslunni fer einmitt fram í gegnum þessi ágætu fjarskipti okkar Íslendinga, í gegnum netið og annað því um líkt. Ef ekki er mögulegt að hluti af opinberri starfsemi sé úti á landi með þessi góðu fjarskipti og þá fjarskiptaáætlun sem við ræðum um verður það aldrei mögulegt. Þá skulum við bara segja það og við skulum ekki vera að tala um það á tyllidögum að við séum opin fyrir því að flytja opinber störf út á land. Það gengur ekki upp lengur.

Vegagerðin og undirstofnanir hennar eru mjög vel til þess fallnar að vera fluttar út á land. Ég efa að aðrar stofnanir séu betur til þess fallnar að flytja út á land. Vegagerðin á húsnæði vítt og breitt um landið. Í mörgum byggðarlögum er húsnæði sem er algjörlega vannýtt og það gefur mikla möguleika. Ég kalla eftir því að við vinnslu þessa máls í nefndinni förum við ofan í það hvort mögulegt sé að flytja starfsemi Vegagerðarinnar á ákveðið löngum tíma út á land líkt og gert hefur verið. Ég er sannfærður um að ef það er skoðað ætti að vera hægt að ná þverpólitískri samstöðu um að stofnun sem þessi verði flutt út á land. Jafnframt vil ég að skoðað verði hvort mögulegt sé að flytja alla starfsemi hennar út á landsbyggðina.

Þetta er ekki sagt í þeim tilgangi að auka á deilur milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar eða annað því um líkt. Það er einfaldlega viðurkennt, nágrannalönd okkar viðurkenna það og menn viðurkenna það hér á tyllidögum, að það er mikilvægt að landið allt sé í byggð. Lykillinn að því eru verk ríkisstjórnar og skipulag stjórnsýslunnar. Svona flutningur hefur gefið gríðarlega góða raun.

Ég kalla því eftir því við vinnslu þessa máls að við förum ofan í það hvort mögulegt sé að þessi stofnun verði flutt út á land og að nefndin fari ítarlega ofan í hver innri uppbygging hennar er. Ég er nánast viss um að það er ekki síður hagkvæmt að stofnunin sé staðsett úti á landi. Ég er nánast viss um að það muni ekki koma niður á hagræði, á sparnaði. Ég kalla eftir því að við förum í þá hlið málsins samhliða því sem fjallað verður um málið í nefndinni.