140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:36]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera rétt að utanríkisráðherra hafi beitt sér í þessa veruna í einhverjum mæli. En ég vil hins vegar minna hæstv. utanríkisráðherra á að á sama tíma og hann flytur þýðingastörf, tímabundin störf, út á land vegna gæluverkefna síns eigin flokks þá hefur fjölda manns verið sagt upp á heilbrigðisstofnunum á sömu svæðum, þannig að auðvitað er mikilvægt … (Gripið fram í.) Vegna mikils áhuga hæstv. forsætisráðherra á samhæfingu og samþættingu þá held ég að hæstv. utanríkisráðherra ætti að beita sér fyrir því að slíkt yrði aukið í meira mæli þannig að hægri höndin vissi hvað sú vinstri væri að gera.

Hæstv. utanríkisráðherra kom inn á Evrópusambandið og það væri með svo góða byggðastefnu og annað því um líkt. Ég vitnaði í máli mínu til Noregs í því sambandi og vil benda hæstv. utanríkisráðherra á að það er ekkert sem kemur fram í stefnu Evrópusambandsins um flutning opinberra stofnana út á land. Það eru pólitískar ákvarðanatökur. En það er svolítið sérstakt að í hvert sinn sem ljáð er máls á góðum hugmyndum og góðum málum virðast hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn Samfylkingarinnar ekki geta fjallað um jákvæð mál öðruvísi en að reyna með óbeinum hætti og mjög svo þokukenndum að tengja það við þeirra hugðarefni, Evrópusambandið.

Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir stuðninginn við þetta en ég treysti því jafnframt vegna mikils velvilja hæstv. utanríkisráðherra að þegar þetta mál kemur hingað til atkvæðagreiðslu og kunni að verða breytingartillögur hvort heldur verður frá nefndinni í heild sinni eða einstöku þingmönnum þá treysti ég auðvitað á stuðning hæstv. utanríkisráðherra við allar breytingartillögur sem miða að því að þessi ágæta stofnun flytjist út á land, því að það er jafnt komið með mér og hæstv. ráðherra, jafnvel þó hann sé ráðherra í dag, að við erum báðir með eitt atkvæði af 63 í þingsalnum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita því atkvæði þegar þar að kemur í þeim tilgangi að efla landsbyggðina og að sú stofnun verði að einhverju leyti flutt út á land. (Utanrrh.: Ég bregst aldrei.)