140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þau hafa verið skemmtileg skoðanaskiptin milli hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar og hæstv. utanríkisráðherra. Mig langar þó aðeins í upphafi máls míns að koma inn á það sem hæstv. utanríkisráðherra benti á að sennilega væri eina leiðin til að ríkisstjórnin kveikti á þeirri peru að æskilegt væri að flytja störf út á landsbyggðina, það væri að ganga í Evrópusambandið. Það þótti mér mjög sérkennileg nálgun því að það … (Utanrrh.: … sjáðu Skota, sjáðu Portúgala.) Já, já, hæstv. ráðherra telur að hæstv. ríkisstjórn geti ekki tekið þessar ákvarðanir öðruvísi en að ganga í Evrópusambandið þannig að þá hljóta samningaviðræðurnar og aðildarviðræðurnar náttúrlega að stranda á þeirri einföldu ástæðu … (Utanrrh.: … gat enginn nema ég á sínum tíma.)

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn og ráðherra að gefa ræðumanni hljóð.)

Þetta er kunnuglegt miðað við það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason fékk einmitt í óundirbúnum fyrirspurnum áðan þegar hæstv. forsætisráðherra var spurð um hvað liði skoðun hennar á þeim stefnubreytingum sem urðu eftir að hún varð ráðherra, en áður var hún almennur þingmaður og talaði um stjórnvöld á þeim tíma að þau gætu ekki opnað augun fyrir því að það þyrfti að gera eitthvað í sambandi við verðtrygginguna, að þá kom hið einfalda svar Samfylkingarinnar: Það verður að ganga í Evrópusambandið. Það er alveg sama hvað það er, það verður alltaf að ganga í Evrópusambandið.

Ég er hins vegar algerlega ósammála hæstv. utanríkisráðherra í þessu máli að ekki sé hægt að færa stofnanir út á landsbyggðina öðruvísi en að ganga í Evrópusambandið. Það segir sig náttúrlega sjálft. Það er bara fyrirsláttur og kannski hugsanlega til að hafa gaman af því.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason nefndi áðan í ræðu sinni. Þegar við funduðum með fulltrúum af Norðurlandi vestra í gær kom eitt fram mjög athyglisvert að því leyti til, því að það hefur jú komið fram í máli hæstv. innanríkisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra að stefna ríkisstjórnarinnar sé sú að flytja störf út á land og hlúa að landsbyggðinni, en það er svo með þessa stefnu ríkisstjórnarinnar eins og allar aðrar, hún er svo misskilin að það áttar sig enginn á því að þó að ekkert sé að gerast í málefninu þá telur ríkisstjórnin að svo sé.

Það kom nefnilega fram að fulltrúar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hefðu skrifað hæstv. forsætisráðherra bréf og óskað eftir að settur yrði saman svokallaður viðbragðshópur eða undirbúningshópur um hvernig mætti bregðast við þeirri fólksfækkun og þeirri vá sem væri hugsanlega fyrir dyrum á Norðurlandi vestra. Það bréf var sent í nóvember sl. og í gær hafði ekki einu sinni borist svar um að það hefði verið móttekið, þannig að við sjáum nú efndir ríkisstjórnarinnar og hvernig hún tekur á þeim verkefnum sem hún á að sinna.

Mig langar aðeins að koma inn á þetta í sambandi við flutning opinberra starfa fyrst við erum að ræða það hér. Ég vil taka það fram og ég vil skora á hæstv. ráðherra og auðvitað hv. samgöngunefnd að skoða það líka í samvinnu við ráðuneytið hvort ekki mætti, eins og hæstv. ráðherra kom að í seinna andsvari sínu, hugsanlega styrkja undirstofnanir, t.d. Vegagerðarinnar í þessu tilfelli. Hún er með margar undirstofnanir um landsbyggðina, eins og hæstv. ráðherra sagði í seinna andsvari sínu áðan. Það mætti hugsanlega færa ákveðna starfsemi inn á þær stofnanir og styrkja þær enn frekar en verið hefur. Því miður hefur verið skorið niður á mörgum þeim stofnunum á undanförnum missirum. Ég tel líka mikilvægt að gera það í ljósi þess að við erum búin að fá 6. gr.-heimild og beiðnir um það einmitt hjá Vegagerðinni að kaupa eða leigja nýtt húsnæði fyrir aðalstöðvar Vegagerðarinnar í Borgartúni, ég tala ekki um í ljósi þess.

Það er annað sem mig langar að hvetja hv. samgöngunefnd til að gera og innanríkisráðuneytið að aðstoða nefndina við, þ.e. að skoða sérstaklega, fyrst við erum að fara yfir þessi mál sem varða þessar tvær stofnanir sem á að setja á fót, á hvern hátt niðurskurðurinn hefur farið fram í viðkomandi stofnunum sem heyra undir þessar breytingar í lögunum.

Ég hef stundum verið hugsi yfir því að þær stofnanir sem hafa svokallaðar verklegar framkvæmdir — ég hef haft það á tilfinningunni, ég ætla ekki að fullyrða að svo sé — hafi skorið minna niður í stjórnsýslunni en í framkvæmdum, þær hafi tekið niðurskurðinn inn í framkvæmdirnar. Ég held að skoða þurfi þetta sérstaklega.

Ég skoðaði líka yfirstjórn Vegagerðarinnar þegar við fjölluðum um þetta mál í fyrra. Þar hafði orðið mjög lítil breyting á, mjög lítil breyting. Ef ég man rétt hafði frá árinu 2008 fækkað um tvö stöðugildi. Ég tel að mikilvægt sé að skoða þetta í þessu samhengi.

Þá komum við líka að því að ég tel vera meiri þörf, það er mín persónulega skoðun og ég sagði það við vegamálastjóra á fundi samgöngunefndar og get sagt það hér, ég tel vera meiri þörf fyrir hjúkrunarfræðing á Landspítalanum en upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni, sérstaklega í ljósi þess, og það liggur fyrir, að ekkert á að gera í framkvæmdum. Það þarf ekki að segja það nema einu sinni. Þó að menn hafi getað misskilið það og reynt að snúa út úr því sem ég átti við þá var þetta meiningin og þetta get ég sagt hvar sem er og hvenær sem er.

En aðalatriðið er þetta: Ef menn vilja styrkja stöðu landsbyggðarinnar eiga menn að gera það þegar bjóðast slík tækifæri en ekki alltaf ætla að gera það einhvern tíma seinna. Ég er reyndar orðinn dálítið þreyttur á því.

Ég starfaði um nokkurn tíma sem sveitarstjórnarmaður. Ég hef haft á tilfinningunni — og það snertir ekkert þessa ríkisstjórn — að viðvarandi vandi stjórnvalda á hverjum tíma sé sá að þegar verið er að færa rök fyrir því að störf eigi líka að vera á landsbyggðinni þurfi alltaf að koma með einhverjar sérstakar skýringar og sérstök rök fyrir því. Ég er fyrir löngu búinn að fá upp í kok af slíkum kröfum frá framkvæmdarvaldinu. Við erum ekki að sjá neinar breytingar í þessu. (Gripið fram í: Jú, jú.) Nei, við erum ekki að sjá það.

Ég hvet hæstv. utanríkisráðherra til að fara yfir fjárlögin. Ég ætla að nefna eitt dæmi sem snýr að því hvað gert var á fjárlögum síðast. Náttúrustofurnar allar úti á landsbyggðinni voru skornar af, nánast. Gengið var nánast milli bols og höfuðs á þeim og það verður að grípa þar inn í … (Utanrrh.: … hver bjó þær til?) Ég veit það, hæstv. utanríkisráðherra, að þó svo að hæstv. ráðherra hafi á sínum tíma stofnað náttúrustofurnar þá er samt verið, eða tilraun gerð til þess, að vega mjög að starfsemi þeirra. Viðbótarframlagið sem fjárlaganefnd og þingið setti inn á milli áranna 2011 og 2012 var allt skorið niður. Hins vegar er málið komið í betri farveg að því leyti til að núna var það skilyrði fjárlaganefndar og það rætt við ráðuneytið að gerðir yrðu samningar en ekki að um þetta yrði slagur. En á sama tíma og þetta er gert er mokað og aukið fé sett í Náttúrufræðistofnun. Hverjar voru skýringarnar á því? Jú, það þurfti að fara að skoða fullt af hlutum og framkvæma ákveðna þætti og gera breytingar (Gripið fram í: … undirbúningur …) sem voru nánast að öllu leyti úti á landsbyggðinni. Ekki var hægt að fela náttúrustofunum það. Það eru því mýmörg dæmi um að í raun og veru hefur ekkert breyst.

Það er eins og mönnum sé alltaf stillt þannig upp að þeir þurfi að koma sem einhverjir þurfalingar utan af landsbyggðinni til að fá störfin út á landsbyggðina. Það er ekki sanngjarnt og talað er um kjördæmapotara og eitthvað slíkt, það er algerlega óþolandi. Og ég held að í raun og veru komi einhvern tíma að þeim tímapunkti að við sem búum á landsbyggðinni viljum bara fá að vera í friði. Ég gæti vel hugsað mér að Norðvesturkjördæmi eitt og sér væri bara sérstakt ríki (Utanrrh.: Sjálfstætt.) já, væri bara sjálfstætt ríki og fengi frið fyrir valdinu fyrir sunnan og þá held ég að vegur okkar mundi vænkast mjög mikið. Ég er alveg fullviss um það. (Gripið fram í.) Þá mundum við sjá um okkar vegagerð, við mundum sjá um heilbrigðismálin og svo koll af kolli. Við mundum hafa okkar tekjur og vera í okkar fylki, eins og hæstv. utanríkisráðherra tók undir áðan.

Þá gætum við hugsanlega gert það eins og nú er — við fengjum náttúrlega innflutningstekjur okkar og gjaldeyrinn, þá gætum við selt þeim sem þyrftu á honum að halda en skaffa hann ekki í Reykjavík, kannski á álagsgengi eins og staðan er í dag. Ég er því alveg sannfærður um að það kemur að þeim tímapunkti að menn fá nóg af þessari umræðu. Það er alveg með ólíkindum að þurfa alltaf að stilla þessu með þeim hætti að þegar menn fara fram á réttlæti í þessum málum þá gerist það svona.

Hægt er að nefna svo mörg dæmi þar sem niðurskurðurinn hefur bitnað á á undanförnum missirum. (Gripið fram í.) Ég er ekki að gera lítið úr því, þeim staðreyndum og þeim upplýsingum sem komu fram þegar eftir því var kallað af hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni. Það voru mjög sláandi upplýsingar sem komu fram um hvernig fækkun hefur orðið í störfum hjá hinu opinbera í heilbrigðisþjónustunni. Það var langmest á Landspítalanum og nánast yfir 90% konur.

Þá komum við að kynjaðri fjárlagagerð og þeirri frasakenndu vitleysisumræðu eins og alltaf er. Stjórnmálamenn sumir hverjir, eins og hæstv. forsætisráðherra, hún fer að þvæla og bulla um einhverja kynjaða fjárlagagerð — sem felst í því að reka konur út af heilbrigðisstofnunum. Það er kynjuð fjárlagagerð, en það er ekki markmiðið með því. Síðan eru embættismenn í ráðuneytunum settir í að hræra í einhverjum pappírum þar. Það er kynjuð fjárlagagerð — jú, það er verið að vinna í henni en hún kemur bara til framkvæmda einhvern tíma seinna. Menn verða nú aðeins að fara að passa sig á þessari umræðu eins og hún hefur verið.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að lengja umræðuna en hvet hæstv. ráðherra og hv. samgöngunefnd til að skoða sérstaklega hvort setja mætti styrkari stoðir undir stofnanirnar, t.d. Vegagerðina, verði þetta frumvarp að lögum, sem ég vona svo sannarlega að verði ekki óbreytt fyrr en ég fæ þá fyrir því þau efnislegu rök sem mér finnst vanta upp á borðið. En verði það niðurstaðan verður það gert með þeim hætti að menn skoði það sérstaklega hvort hægt verði að spara peninga með því að styrkja þær stofnanir sem eru á landsbyggðinni, því að verið er að skera þær niður núna.

Ég hvet líka til þess, eins og ég sagði, að skoða hvernig niðurskurðurinn hefur farið fram. Það er nefnilega dálítið umhugsunarefni fyrir okkur í þinginu að fara yfir það hvernig staðið er að niðurskurðinum. Það er ekki pólitískur ágreiningur um — þó að við finnum nóg af tilefnum til að rífast um pólitískt, þá er ekki pólitískur ágreiningur um að hlífa velferðarkerfinu, það er ekki pólitískur ágreiningur um það. En ég spyr: Erum við í raun og veru að gera það? Ég er ekki viss, en ég get nefnt mörg dæmi og ég tók eitt dæmi á fundi fjárlaganefndar í gær.

Nú erum við að fjalla um lokafjárlög fyrir árið 2010. Þá sjáum við í raun og veru niðurstöðuna af því sem við erum að gera því að menn fjalla lengi um fjárlög, fara hér mikinn og nota langan tíma í að ræða við aðra þingmenn og hæstv. ráðherra um að reyna að fá 5 milljónir hér og 2 milljónir þar eða 1 milljón til að bjarga einhverju sem hægt er að bjarga sem menn telja mikilvægt. En það sem þarf nefnilega að fara að skoða betur eru svokölluð lokafjárlög því þar er framkvæmdarvaldið oft og tíðum að færa til fullt af bixi sem enginn hefur áttað sig á hingað til eða að minnsta kosti lítið verið rætt um.

Ég vil nefna bara eitt dæmi þar, ég gæti nefnt mörg önnur. Eins og ég sagði er ekki pólitískur ágreiningur um það að hlífa velferðarþjónustunni. Öll viljum við gera það. Við höfum skilning á því að við viljum ekki skerða heilbrigðisstofnanirnar með því að reka konur, eins og ég sagði áðan, í þessari kynjuðu fjárlagagerð. En á sama tíma og þingið tekur ákvörðun og samþykkir fjárlög — sem er svona stefnuplagg ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma og menn vilja að það marki þá skýru sýn sem ríkisstjórnin hefur — er í einu tilfelli, bæði á milli áranna 2008 og 2009 og áranna 2009 og 2010, stofnun að auka umsvif sín í annað skiptið yfir 20% og í hitt skiptið um 20%, þ.e. miðað við það sem áætlað er í fjárlögum. Svo erum við að eyða tíma — þetta eru engir smápeningar, þetta eru 400 millj. kr. Ég segi: Ef við hefðum tekið þessa peninga, af því að það merkilega við þessa stofnun er að þær koma nefnilega innan úr einu ráðuneyti, þær eru ekki komnar einhvers staðar utan úr bæ frá verkefnum sem stofnunin er að vinna. Þær koma bara innan úr ráðuneytinu, 400 milljónir, í þessa stofnun og umfram það sem Alþingi áætlaði, 400 milljónir. Og ég velti því upp: Hefðu verið mikil pólitísk átök um það á þinginu ef einhver hv. þingmaður hefði flutt tillögu um að bæta við ef við hefðum vitað að niðurstaðan yrði 400 millj. kr. hærri? — Og ég horfi á hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Ef hv. þingmaður hefði sagt: Við skulum frekar setja þessar 400 millj. kr. til að hlífa heilbrigðisstofnunum. Ég þori nánast að fullyrða að enginn hv. þingmaður hefði gert annað en greitt atkvæði með tillögu hv. þingmanns sem hefði komið þannig fram.

Við þurfum því að fara yfir hlutina eins og þeir eru en ekki með þessum hætti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég tel mjög mikilvægt að menn skoði þetta í því ljósi að menn njóti jafnræðis og að ekki sé alltaf litið á þá þingmenn landsbyggðarinnar, sem að sjálfsögðu þekkja betur til á sínum svæðum en aðrir, þegar þeir koma og færa rök fyrir því að færa eigi til störf eins og þeir séu í einhverjum betliferðum. Eins og ég sagði við hæstv. utanríkisráðherra áðan, þá er ekki nema eitt fyrir okkur að gera og það er að lýsa yfir sjálfstæði og þá segi ég bara: Þá mun íbúaþróun á Íslandi snúast við.