140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessu er til að svara að gjald sem hér er lagt á er sett með hliðsjón af áætluðum kostnaði vegna eftirlitsins. Ef við ætlum að fara út í samanburð við önnur lönd verðum við að horfa til þess, eins og ég gat um í upphafsorðum mínum, að eignarhaldið er á vegum opinberra aðila. Hér er það ekki. Illu heilli var þetta einkavætt á sínum tíma. Ég segi fyrir mína parta, sem greiðandi til þessa fyrirtækis, þar sem ég held úti síðu, að ég vil nú gjarnan að það sé einhver sem heldur utan um mína hagsmuni, vegna þess að hér erum við að tala um fyrirtæki sem hefur einokun á markaði. Við erum ekki að tala um samkeppnismarkað. Þá er ekki um annað að ræða en að við sem erum í þessum sal, löggjafinn, setjum reglur okkur til halds og trausts.

Það er alveg rétt, og ég ítreka það sem ég segi, þetta þarf að vera byggt á raunsæi, því að við viljum líka koma fram af sanngirni gagnvart þessum rekstraraðila, við viljum gera það að sjálfsögðu. Við þurfum að horfa til þess hvað þetta eftirlit kostar.