140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:40]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi okkar pólitíska ágreining, þá er hann kunnur. Ég vil hafa starfsemi í opinberum rekstri þar sem ég vil ekki virkja markaðslögmálin, innan velferðarþjónustunnar til dæmis, eða þar sem markaðslögmálunum verður ekki komið við, þar sem ekki er hægt að virkja þau. Hér erum við að tala um svið þar sem sú staðreyndin er uppi.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta frumvarp er ekki sett til höfuðs þeirri starfsemi sem nú er rekin. Ég ber fullt traust til þeirra aðila sem rækja þessa starfsemi og var að árétta hér áðan að verðlagningin var ekki með þeim hætti sem ég hafði talið þegar við tókum þetta til umfjöllunar síðast. Ég vék að því sérstaklega að gjaldið var lækkað í desember þannig að við erum ekki að bregðast við neinu sem úrskeiðis hefur farið. Alls ekki. Við erum einvörðungu að setja hér lagaramma um starfsemi til frambúðar. Það er hugsunin að baki frumvarpinu.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er eðlilegt að þingnefnd fari rækilega í saumana á málunum, skoði gjaldtökuna, hvort hún geti talist eðlileg, leyfisveitingatíma og annað af því tagi. Það er ekkert óumbreytanlegt í þessu. Að sjálfsögðu er það þingið sem hefur lokaúrslitavald í þessu máli sem ég held að við getum sameinast um að eigi að leiða til þess að neytendahagsmunir séu sem best varðir og að hagsmunum skattborgara og fyrirtækinu sýnd full sanngirni.