140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir alvarlegar athugasemdir við málflutning minn. Ég ætla að leyfa mér að gera athugasemdir við málflutning hv. þingmanns og spyrja hann hvort hann sé andvígur því að fyrirtæki á einokunarmarkaði, sem er enginn markaður, með einokun og í rauninni fastan kúnnahóp sem kemst ekkert annað því að hann þarf að nota landslénið okkar — er hann andvígur því að gjöldin sem eru sett á okkur borgara þessa lands eða fyrirtæki séu kostnaðargreind? Er hann andvígur því? Þegar hann ber okkur saman við önnur ríki eins og Svíþjóð þá gat ég þess að þar á sjálfseignarstofnun í almannaeign lénið og allur ágóði af léninu rennur ótakmarkað til uppbyggingar internetsins. Þetta er ekki sambærilegt.

Þegar hv. þingmaður kemur hingað upp og flytur okkur sína tilfinningaþrungnu ræðu og segir að við þetta fyrirtæki hafi aldrei verið neitt að athuga þá er það náttúrlega ekki alveg rétt. Staðreyndin er sú að eigendaskipti hafa orðið hjá fyrirtækinu. Það er eðli einkafyrirtækja. Þau ganga kaupum og sölum. Þar tekur einn eigandi við af öðrum og þeir eru ekki allir settir undir sama hatt. Sú var tíðin að þetta fyrirtæki var gríðarlega skuldsett eins og ég vék að í dæminu frá Finnlandi þar sem samsvarandi fyrirtækið varð gjaldþrota og Póst- og fjarskiptastofnunin þurfti að taka það yfir. Að bera þetta tiltekna fyrirtæki saman við hvern annan atvinnurekstur er rangt.

Síðan ætla ég að segja hv. þingmanni að vara sig á að dylgja um starfsmenn innanríkisráðuneytisins eða þá sem hafa komið að þessum málum. Okkur og starfsmönnum fyrirtækisins hafa borist kvartanir eða fyrr á tíð, ekki núna, þá bárust kvartanir og þær bárust opinberlega hér á Alþingi og þegar vakið er (Forseti hringir.) máls á því er það ekki óeðlilegt. Það væri óeðlilegt ef reynt væri að þagga þessar raddir niður. (Forseti hringir.) Þetta eru staðreyndir.