140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að hann hyggist að sjálfsögðu hlíta því þegar málið er komið í þinglega meðferð að gera ekki athugasemdir við það.

Mig langar að beina einni spurningu til hæstv. ráðherra. Ég geri mér grein fyrir að hann getur ekki svarað henni núna en ég þykist vita að hann verði með lokaræðu um málið. Það er nokkuð sem við höfum rætt og hæstv. ráðherra hefur oft rætt í gegnum tíðina. Ég tel að við deilum ekki um það þótt við gerum það víða annars staðar og þurfum svo sem ekki að finna okkur sérstakt tilefni til þess, nóg er af þeim. Það sem kemur fram í 19. gr. frumvarpsins er reglugerðarheimild þess efnis að ráðherra skuli „heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara“. Þetta er mjög opin reglugerðarheimild. Þá bendi ég á það sama og margir hv. þingmenn hafa gert, og ég tel víst að hæstv. ráðherra hafi einhvern tíma sagt eitthvað í þessum ræðustól um framsal löggjafarvaldsins til framkvæmdavaldsins. Ég er mjög hugsi yfir þessu og tel að það þyrfti að þrengja ákvæðið miklu meira en svo að hæstv. ráðherra hafi reglugerðarheimild til að setja um nánari framkvæmd laga þessara — punktur, alveg sama hvaða grein er undir eða hvað það er. Ég set spurningarmerki við þinglega meðferð málsins ef þetta verður samþykkt og gerðar hugsanlegar breytingar í þinginu af hv. samgöngunefnd. Er í raun hægt að líta svo á að framkvæmdarvaldið hafi með þessari opnu heimild gríðarlegar heimildir frá þinginu til að útfæra þetta, eins og má skilja reglugerðarheimildina, þannig að viðkomandi ráðherra sem á þeim tíma kemur að þessum lögum hafi nánast sjálfræði um hvað hann geri? Ég tel að þetta þurfi að þrengja mjög mikið.