140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans. Það er alltaf fræðandi og hefur ákveðið skemmtigildi þegar hv. þingmaður rifjar upp söguna um einkavæðinguna. Hann sagði áðan: Ímyndið ykkur hvað hefði gerst ef við værum bara með gamla Póst og síma sem skilaði okkur 3 milljörðum í ríkissjóð á hverju ári. Póstur og sími byggði upp ódýrasta (Gripið fram í.) símkerfi í heiminum og stóð þar framarlega í flokki. Það var á þeim tíma þegar símafyrirtækin á Norðurlöndunum höfðu samráð sín í milli. Það var áður en forstjórarnir mættu á fund með hnífinn uppi í erminni, eins og gamli póst- og símamálastjórinn orðaði það, vegna þess að þeir vildu ekki ljóstra upp um viðskiptaleyndarmál. Áður var tími samvinnunnar en ekki sundurlyndis og samkeppni.

Fyrst hv. þingmaður rifjar upp þessa sögu skal ég rifja líka upp fyrir hann og aðra sem á hlýða að á fyrstu missirum eftir að Síminn var markaðsvæddur fóru þeir sem þar réðu skipinu í stórfelldar áhættufjárfestingar út um víða veröld. Ég man ekki betur en að það væri hálfur milljarður í Ameríku. Fyrirtækið var gert að fjárfestingarfyrirtæki, -búllu, eins og mörg önnur fyrirtæki sem þá voru á markaði. Það er bara staðreynd málsins.

Það er líka staðreynd að á fyrstu árunum eftir að lénið var einkavætt var það orðið gríðarlega skuldsett vegna mjög umdeilanlegrar lántöku.

Þingmaðurinn sagði líka: Munið þið þá tíð þegar bönkunum var stýrt af pólitíkusum? Þeir voru þá væntanlega úr öllum flokkum. Síðan var það bara einn flokkur. Stjórnendurnir voru úr einum eða jafnvel tveimur flokkum og svo fór sem fór. Það er dæmi um alveg ótrúlega fífldirfsku að halda út á þennan umræðuvettvang eins og hv. þingmaður gerði eftir að allt hér hrundi eftir einkavæðinguna sem hv. þingmaður og flokkur hans stóðu fyrir öðrum fremur. Ég mundi fara mjög varlega í staðhæfingar hvað það snertir.

Síðan er það hitt, að varað er við því að reglugerðarheimildir ráðherra séu víðar. Ég tek alveg undir það. Það er reyndar í takt við það sem almennt gerist við lagasetningu. Það er alveg rétt, það er umdeilanlegt. Það sem ég tel að þurfi að breytast þar er hvernig farið er með reglugerðarvaldið. Það er eitt að það standi og að þar sé ákveðinn sveigjanleiki fyrir hendi til að geta brugðist við aðstæðum, en ég tek undir með hv. þingmönnum sem varað hafa við þessu að það á að fara varlega með reglugerðarvaldið. Við gerum það náttúrlega. Við, Alþingi og framkvæmdarvaldið, erum að feta okkur út á þær brautir að fara varlegar. Til dæmis er komið inn í lög núna að gjald þarf að hækka eða breytast með lagasetningu, það verður ekki gert með neinum geðþóttaákvörðunum. Við erum því smám saman að fara inn í agaðri lagasetningu og regluverk hvað þetta snertir.

Þessi umræða hefur verið mjög góð. Vakið hefur verið máls á ýmsum þáttum. Mér hefur fundist hún einkennast svolítið af því að það er rík umhyggja fyrir fyrirtækinu sem rekur þessa starfsemi en mér fundist aðeins skorta á að menn horfðu til notandans, horfðu til skattgreiðenda og hagsmuna hans, hagsmuna almennings. Ég veit að ekkert illt vakir fyrir mönnum en það þarf að vera jafnvægi þarna.

Ég hef reynt að leggja áherslu á það líka að auðvitað þarf að sýna þeim aðilum sanngirni sem reka þetta fyrirtæki. Ég ítreka að þeir sem annast hafa þennan fyrirtækjarekstur eða rekstur á þessari starfsemi í seinni tíð hafa gert það ágætlega. Ég ber fullt traust til þeirra, ég hef átt ágætar viðræður við þá aðila og hef ekkert upp á þá að klaga. En hitt er mjög mikilvægt að við setjum löggjöf sem gætir hagsmuna almennings, notenda, einstaklinga, fyrirtækja og skattgreiðenda.

Helstu atriði þessa frumvarps ganga út á það að stjórnvöld axli ábyrgð gagnvart mikilvægum innviðum samfélagsins, og það er það óumdeilanlega. Í öðru lagi er lögð áhersla á að starfsemi skráningarstofu sé bundin starfsleyfi frá opinberum aðila. Í þriðja lagi er úrlausn ágreiningsefna fundinn lögbundinn farvegur með þessari lagasmíð. Það felur í sér aukið réttaröryggi. Þarna er líka skapaður lögbundinn samráðsvettvangur um málefni internetsins. Þarna eru því stigin ýmis framfaraskref.

Hæstv. forseti. Ég vil undir lok þessarar umræðu um samgöngumál almennt þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram. Við höfum ekki verið sammála um alla hluti. Talað hefur verið um hagsmuni landsbyggðar og Reykjavíkur og mér hefur stundum fundist menn ganga nokkuð langt í að hallmæla höfuðborginni og þéttbýliskjarnanum hér og gleyma því að stofnanir á höfuðborgarsvæðinu hafa þurft að sæta miklum niðurskurði og þrengingum ekki síður en stofnanir úti á landi. Reyndar gat hv. þm. Ásbjörn Óttarsson um það í máli sínu þótt hann legði jafnframt til að stofnað yrði sérstakt ríki á Norðvestur-Íslandi, en það er nú önnur saga.

Ég vil ekki ganga frá þessari umræðu án þess að rétta hlut Vegagerðarinnar að því leyti að hún hefur þurft að sæta aðhaldsaðgerðum í stofnanakerfi sínu ekki síður en aðrar stofnanir. Þegar vikið er sérstaklega að starfi upplýsingafulltrúa eru það sennilega fáar stofnanir sem þurfa eins mikið á því að halda að hafa góða upplýsingaveitu um samgöngukerfi okkar landsmanna.