140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[16:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og endranær að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek alveg heils hugar undir með hæstv. ráðherra um að við megum ekki festast í því að ræða um þá einstaklinga sem stýra fyrirtækinu í dag. Það færi betur á því að við hefðum þannig starfsfólk í framtíðinni. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra að því í andsvörum mínum við fyrri ræðu hæstv. ráðherra hvort ráðuneytið hefði rætt við forsvarsmenn fyrirtækisins, því að ég deili að vissu leyti áhyggjum hæstv. ráðherra af því að við fáum einhverja inn í fyrirtækið, sem er með einkaleyfi á markaðnum, sem munu ekki standa sig vel og gætu hugsanlega skaðað landslénið. Ég hefði talið eðlilegra, og það var einmitt rætt í nefndinni, að hugsanlega yrði rætt við forustumenn fyrirtækisins um einhvers konar forkaupsrétt á hlutabréfum í fyrirtækinu eða farin mildari leið en gert er með þessu fimm ára ákvæði. Þess vegna kallaði ég eftir því. Ég deili áhyggjum hæstv. ráðherra af þessu. Við megum líka ekki festast í því að ræða um þá einstaklinga sem stýra fyrirtækinu í dag.

Ég gagnrýni að það sé svo opin reglugerðarheimild í frumvarpinu sem ég tel allt of víðtæka. Auðvitað fer það eftir hæstv. ráðherra á hverjum tíma hvernig farið er með málið hverju sinni, og þótt hæstv. innanríkisráðherra gæti hugsanlega farið varlega og skynsamlega með þetta reglugerðarákvæði er það ekkert sjálfgefið að svo verði áfram. Af því höfum við mikla og dapurlega reynslu. Við megum því heldur ekki hugsa það þannig að við samþykkjum lögin með svona víðtækri reglugerðarheimild í ljósi þess að hugsanlega muni núverandi hæstv. innanríkisráðherra fara varlega með vald sitt. Hann verður að sjálfsögðu ekki eilífur í starfi og á eftir honum gætu komið aðrir hæstv. ráðherrar sem fara ekki eins varlega með vald sitt og hann. Við verðum líka að vera meðvituð um það þegar við ræðum þessa hluti að festast ekki í að tala eins og sami maðurinn muni alltaf gegna ákveðnu ráðherraembætti.