140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[16:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Herra forseti. Mér þykja það stórbrotin tíðindi að hingað komi hæstv. innanríkisráðherra og lýsi því ótvírætt yfir að hann treysti ekki réttarkerfinu til að taka hina einu réttu afstöðu. Það finnst mér stórmerkileg yfirlýsing af hálfu yfirmanns dómsmála í landinu. Mér finnst það eiginlega tilefni til sérstakrar umræðu almennt um afstöðu hæstv. innanríkisráðherra til réttarkerfisins.

Það er hins vegar gagnrýnisvert í þessu einstaka máli að þessi almenna afstaða til réttarkerfisins liggi til grundvallar því sjónarmiði hans að ekki eigi að leyfa dómurum að dæma sameiginlega forsjá í tilviki forsjárdeilna. Þessi afstaða hæstv. ráðherra ætti miklu frekar að leiða til þess að hann væri á móti því yfir höfuð að forsjármál færu fyrir dóm ef einhver samkvæmni væri í afstöðu hæstv. ráðherra og orðum. Hæstv. ráðherra verður náttúrlega að rökstyðja á hvaða hátt það er farsælla að dómarar dæmi, og geti bara dæmt samkvæmt lögum, öðru foreldrinu forsjá þegar við horfum á hlutina út frá sjónarhóli barnsins.

Tveir hæfir einstaklingar, óneitanlega í deilum, þetta eru einstaklingar sem hugsanlega hafa ákveðið að skilja og eru því ekki sáttir, það getur vel verið að þeir vilji leysa sín mál fyrir dómstólum. Dómari horfir á öll atriði málsins og hæstv. ráðherra verður að útskýra af hverju það er í öllum tilvikum þegar svona er komið — þegar málið er komið fyrir dómstóla, burt séð frá áherslu hans á sáttameðferð — undantekningarlaust og út frá hagsmunum barnsins alltaf betra að dómarinn dæmi öðru hvoru foreldrinu forsjána og hitt missi þá forsjána. Mig langar að vekja athygli á því hvað þetta er í raun ómanneskjuleg og kaldranaleg nálgun á forsjárdeilur að ætla sér að leggja upp með það, þvert á það sem ríkir í öllum hinum Norðurlöndunum, að það verði meginregla í forsjárdeilum að annað foreldrið missi forsjána með dómsúrskurði vegna þess að það er meginregla eftir skilnað á Íslandi að fólk hafi sameiginlega forsjá. Hér er þá lagt upp með þá meginreglu að í dómsmálum skuli annað foreldrið missa forsjána jafnvel þó að engin efnisleg rök séu fyrir því og jafnvel þó það sé ekki barninu fyrir bestu heldur bara vegna þess að það stendur í lögunum — og mér liggur við að segja: Bara vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra finnst það. Þetta er ekki boðlegt.

Nú skulum við líta á feril þessara mála á Íslandi. Það eru, að ég held, átta ár síðan nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins komst að þeirri niðurstöðu að taka ætti upp á Íslandi heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá og það var lagt fyrir ríkisstjórnina og það var samþykkt. Nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins, nefnd um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum, stór nefnd, komst líka að þeirri niðurstöðu að heimila ætti dómurum að dæma sameiginlega forsjá. Nefndin sem samdi það frumvarp sem við erum að ræða komst að þeirri niðurstöðu, að vandlega athuguðu máli, að heimila ætti dómurum að dæma sameiginlega forsjá. Allar þær nefndir sem við Íslendingar höfum sett á stofn á undanförnum árum á vegum hins opinbera hafa komist að þeirri niðurstöðu að heimila eigi dómurum að dæma sameiginlega forsjá. Hvað hefur breyst? Ég sé ekki betur en það eina sem hafi breyst sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson varð innanríkisráðherra.

Þegar ég skoða frumvarpið sem hér liggur fyrir verð ég ekki var við annað en þar sé að finna mjög samfelldan og greinargóðan rökstuðning fyrir því að heimila eigi dómurum að dæma sameiginlega forsjá. Hér er kafli nánast óbreyttur frá nefndinni, drögunum eins og þau litu út frá nefndinni, um sameiginlega forsjá. Þar er það rakið að sameiginleg forsjá, heimild dómara til að dæma hana, sé fyrir hendi á öllum Norðurlöndum og almennt hafi reynslan verið góð þó vissulega séu þar álitamál. Þar segir, með leyfi forseta:

„Eins og áður sagði hvetur sameiginleg forsjá almennt til aukinnar samábyrgðar og þátttöku beggja foreldra og eykur líkur á tengslum barns við báða foreldra sína. Mikilvægt er að hvetja foreldra til þess að axla þessa ábyrgð og til að standa undir þeim kröfum sem þetta gerir til samstarfs og tillitssemi.“

Hér er rakið hvernig sameiginleg forsjá hljóti að vera besta niðurstaðan ef hún er möguleg. Svo eru hér röksemdir:

„Hér má einnig líta til þess að heimild dómara er talin geta haft jákvæð áhrif á samstarfsvilja foreldra og sporna jafnvel gegn því að annað foreldri krefjist þess að fá eitt forsjá vegna tilfallandi deilumála. Bent hefur verið á að ástæða forsjármála sé stundum smávægilegur eða tilfallandi ágreiningur sem ætti ekki að skipta máli þegar til framtíðar er litið miðað við ríka hagsmuni barns af því að njóta forsjár beggja foreldra. Heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá geti þannig út af fyrir sig aukið mikilvægi og gagnsemi ráðgjafar og sáttaumleitana þegar foreldrar deila um forsjá.“

Ég endurtek þetta vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra verður tíðrætt um mikilvægi sáttameðferðar. Ég vil vekja athygli hans á þessum orðum í greinargerð með frumvarpi sem hann er að leggja fram, orðrétt, með leyfi forseta:

„Heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá geti þannig út af fyrir sig aukið mikilvægi og gagnsemi ráðgjafar og sáttaumleitana þegar foreldrar deila um forsjá.“

Mér finnst það liggja í augum uppi að ef við ætlum að leggja áherslu á sáttameðferð þá verður heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá að vera fyrir hendi. Eins og ásigkomulagið er í þessum málum, eins og réttarkerfinu er uppálagt að afgreiða þetta, þá er það annað foreldrið sem fær forsjána og það er nánast undantekningarlaust móðirin. Miðað við þetta ástand liggur sú spurning í augum uppi hvaða hvati sé fyrir hendi af hálfu móðurinnar að fara í sáttameðferð með deilumál sitt ef yfirgnæfandi líkur eru á því að fyrir dómi muni henni verða dæmd forsjáin. Það eru yfirgnæfandi líkur á því að móðurinni verði dæmd forsjá, það sýnir sagan.

Af hverju, má síðan spyrja almennt, ætti sú meginregla að annar aðilinn fái forsjána að vera líklegri til að hvetja til sátta almennt? Þá skoðar maður greinargerðina og sér samfelldan rökstuðning og býsna góðan fyrir því að taka upp heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Í því ljósi að hæstv. innanríkisráðherra leggur samt ekki til að dómari fái þessa heimild þá leitar maður í greinargerðinni að röksemdum hæstv. ráðherra. Í greinargerðina hefur verið bætt við kafla frá því að drög nefndarinnar voru sett fram þar sem vísað er til röksemda fyrir því að taka ekki upp dómaraheimild í inngangi.

Ég sé ekki betur en að í inngangi sé vísað í athugasemdir aftar í greinargerðinni þannig að hér er vísað í báðar áttir. Þó að túlka hafi mátt orð hæstv. ráðherra áðan sem rökstuðning fyrir því að ekki ætti að taka upp dómaraheimild þá finnst slíkur rökstuðningur ekki í mjög ríkum mæli, alla vega ekki í greinargerðinni, enda komst nefndin sem samdi frumvarpið að þeirri niðurstöðu að heimila ætti dómurum að dæma sameiginlega forsjá og færði fyrir því rík rök og rökin eru öll hér.

Rök felast líka í því að rannsóknir á Íslandi hafa sýnt að reynslan af sameiginlegri forsjá, eftir að hún var tekin upp sem meginregla, hefur verið einkar góð, yfirgnæfandi meiri hluti foreldra sem hafa kosið að nýta sér þessa meginreglu um sameiginlega forsjá er ánægður og kannanir hafa sýnt meðal foreldra að mjög ríkur vilji er til þess, 77% svarenda í almennri könnun árið 2008 voru mjög hlynntir því að dómari gæti dæmt sameiginlega forsjá, um 20% voru frekar eða mjög andvíg slíku fyrirkomulagi.

Í máli hæstv. innanríkisráðherra komu fram ein rök og það voru þau rök að það væri mjög alvarlegt ef ofbeldi væri á heimili. Ég hlýt að taka undir það og ég mundi halda að fyrir dómi mundi dómari líka taka tillit til þess hvort ofbeldi sé á öðru heimilinu og gera það þá að röksemd sinni fyrir því að dæma ekki sameiginlega forsjá. Þannig treysti ég réttarkerfinu en það getur verið að það sé það almenna sjónarmið hæstv. innanríkisráðherra að treysta ekki réttarkerfinu sem býr að baki því að hann treystir ekki réttarkerfinu í þessu tilviki til að dæma sameiginlega forsjá. Hann telur greinilega, hæstv. ráðherra, að verulegar líkur séu á því að dómskerfið muni þá dæma ofbeldisaðila forsjá. Ég treysti réttarkerfinu betur en svo. Ég mundi segja að ofbeldi á öðru hvoru heimilinu væri mjög málefnaleg og rík ástæða til að dæma þá ekki aðila forsjá.

Við getum svo skoðað Norðurlöndin. Hæstv. innanríkisráðherra varð tíðrætt um Norðurlöndin. Það er engin tilviljun að öll Norðurlöndin heimila dómurum að dæma sameiginlega forsjá, öll, hvert eitt og einasta. Í greinargerð með frumvarpinu er þetta rakið ágætlega, enda öðrum þræði röksemd fyrir því að taka upp sameiginlega forsjá. Það er rakið land eftir land: Danmörk, Svíþjóð, Noregur, Finnland, alls staðar er sú meginniðurstaða að almenn ánægja sé með þetta fyrirkomulag en hins vegar hafi komið upp ýmis vandkvæði. Mér dettur ekki í hug í þessum málaflokki að það geti verið öðruvísi en upp komi vandkvæði. En almennt er það algert leiðarminni, í umfjöllun um fyrirkomulagið á Norðurlöndum, að hvergi er verið að tala um að afnema þessa dómaraheimild. Vissulega er verið að tala um að sníða af henni vankanta en hvergi er umræðan á þeim nótum að afnema eigi hana.

Í Danmörku hefur verið frekar rík hefð fyrir því að dæma sameiginlega forsjá jafnvel þó að ekki þyki sýnt að foreldrar geti starfað saman og það er athyglisvert, og hefur komið fram í rannsóknum sem hæstv. innanríkisráðherra rakti, að í tilviki þessara dóma hafa um 50% foreldra ekki talað saman eftir að hafa verið dæmd sameiginleg forsjá. Mér finnst það álíka mikil tíðindi að 50% þeirra starfa saman og tala saman, helmingur þeirra sem eru dæmdir til sameiginlegrar forsjár í Danmörku talar saman. Og er það barninu ekki fyrir bestu? Hvað með þau tilvik? Þeir sem tala ekki saman — líkur á því að þeir hefðu talað saman hefðu aldeilis ekki verið meiri í íslenska fyrirkomulaginu þar sem meginreglan er sú að annað foreldrið skuli alltaf fá forsjána. Danska fyrirkomulagið hefur þó alla vega leitt til þess að helmingur þeirra sem fá forsjána dæmda sameiginlega starfa saman eftir það, eru það ekki veigamikil rök í ljósi þess að við viljum að ákvarðanir sem eru teknar séu alltaf barninu fyrir bestu. Við hljótum líka að vilja að þessi hópur fái sams konar niðurstöðu hér í íslensku réttarkerfi þannig að ég skil ekki alveg mótrök hæstv. ráðherra.

Margt annað hefði ég líka viljað fjalla um. Ég tel til dæmis miður að ekki sé fjallað með ríkari hætti um jafna búsetu í þessu frumvarpi. Staðreyndin er sú að fjölmargir foreldrar kjósa eftir skilnað að ala barnið sitt upp saman. Barnið á þá tvö heimili en í íslenskri löggjöf um það mál er nánast á engan hátt tekið tillit til þess.