140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir áskoranir hv. þm. Magnúsar Orra Schrams til nefndarinnar sem mun taka þetta mál til umfjöllunar og ég skora hér með á nefndina að breyta þessu atriði í umfjöllun sinni. Ég vil þá líka boða það að ég mun leggja fram breytingartillögu um þetta kjósi nefndin ekki að gera það. Það er ekki svo flókið að leggja fram breytingartillögu um þetta vegna þess að það er prýðilegur rökstuðningur fyrir dómaraheimild í greinargerðinni og maður getur þá nýtt sér greinargerðina í rökstuðningi fyrir breytingartillögunni.

Svo er það rétt sem hv. þingmaður nefnir að öll Norðurlöndin hafa þetta fyrirkomulag. Ég vil einnig árétta að allar þær nefndir sem hið opinbera hefur sett á stofn á Íslandi til að rannsaka nákvæmlega þetta atriði hafa komist að þeirri niðurstöðu að við eigum að heimila dómurum að dæma sameiginlega forsjá.