140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, með síðari breytingum, um forsjá og umgengni.

Ég sakna þess, herra forseti, að hvorki formaður, 1. varaformaður né 2. varaformaður velferðarnefndar sé viðstaddur. Hér er einn nefndarmaður úr nefndinni — ert þú varaformaður? (Gripið fram í: Ég er með í …) Já, já, það eru tveir þingmenn hérna úr velferðarnefnd sem geta þá væntanlega borið vitneskju um umræðuna til nefndarinnar.

Ég vildi gjarnan að það yrði sem regla á Alþingi eftir breytingu á þingsköpum …

(Forseti (SIJ): Forseti mun kanna það hvar þingmenn eru en bendir á að málinu verður vísað til allsherjar- og menntamálanefndar.)

Nú, það er alveg nýtt að barnalög heyri ekki undir velferðarnefnd, en kannski er þetta ekki lengur velferð af því að hér er velferðarríkisstjórn. Það er þá alveg nýtt en ég ætla samt að ræða málið.

Það er dálítið athyglisvert að í umræðunni eru eingöngu karlmenn, sem er mjög ánægjulegt og sýnir breytt viðhorf. Og meira að segja er sá forseti sem nú situr líka karlmaður, þannig að þetta eru mjög breyttir tímar frá þeim tíma þegar slík mál, mjúku málin, voru bara rædd af konum. Ég gleðst því yfir því.

Við erum að ræða eiginlega erfiðasta þáttinn í þjóðfélagi okkar og þann þátt sem bitnar í rauninni mest á þeim sem síst skyldi, þ.e. börnum okkar, og oft og tíðum með þeim hætti að það er mjög til skaða. Þegar fólk skilur, hvort sem er eftir hjónaband eða sambúð, myndast oft mjög djúpar og heitar tilfinningar andúðar og haturs. Þær tilfinningar felast oft í því sem heimurinn hafi hrunið yfir viðkomandi, hann fer í mjög mikla andstöðu við sinn fyrrverandi, og það gildir fyrir bæði kynin. Þessar deilur geta orðið mjög hatrammar og mjög erfitt að finna lausn á þeim. Slíkar deilur skaða barnið verulega.

Það sem við ræðum hér — við erum að reyna að finna lausn og ég skora á hv. nefnd sem fær þetta mál til umsagnar að leita að þeirri lausn lagalega sem leysir slíkar hatrammar deilur eins vel og hægt er. Oft er það ekki hægt, það er bara ekki hægt, en leysa þarf slíkar deilur eins og hægt er. Ég held að þetta sé mál sem Alþingi þurfi virkilega að fara að sinna.

Svo eru líka dæmi um að foreldrar séu vanhæfir vegna fíknar og slíks. Því miður er það allt of algengt á Íslandi og dapurlegt. Það er mjög dapurlegur þáttur í þjóðfélaginu þegar börn eiga foreldra sem fíkla. Svo skilja þeir og forsjáin er óljós. Og hver skaðast, herra forseti? Það er barnið. Það er barnið sem skaðast.

(Forseti (SIJ): Forseti vill geta þess að það hafa orðið mistök með tilvísun til nefndar og sú leiðrétting er komin að málið mun fara til velferðarnefndar.)

Þetta er sem sagt velferð, mig grunaði það.

Ég ætla að halda áfram. Ég ætla að ræða sérstaklega það sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á, þ.e. 3. mgr. 13. gr. í frumvarpinu. Þetta er óbreytt frá núgildandi lögum, það er bara ekki nógu gott form að dómari megi ekki dæma sameiginlega forsjá. Mér finnst að það ætti frekar að standa að hann ætti að dæma sameiginlega forsjá nema eitthvað sérstakt mæli gegn því og eftir að hafa kannað hagi beggja foreldra. Það fyrirkomulag um að ekki megi dæma sameiginlega forsjá gerir það að verkum, eins og hér hefur komið fram, að það er yfirleitt konan sem fær forsjána. Niðurstöður sýna líka að það er yfirleitt konan sem hefur forsjána og það gefur henni ákveðið vald þegar um deilur er að ræða, eins og ég gat um. Hún getur bara bent á lögin og sagt: Þarna sjáið þið, ég fæ forsjána með 99,9% líkum. Það gerir það að verkum að engar samningaviðræður verða, það er ekkert um að semja. Fólk neyðist ekki til að semja eins og ef það væri reglan að dómari ætti að dæma sameiginlega forsjá, þá neyddust menn til að ræða saman. Þá neyddist þetta fólk, sem er komið í þá ömurlegu stöðu að hata jafnvel hvort annað, til að ræða saman um hag barnsins sem kom út úr því sambandi og líður fyrir það.

Ég tel að það sé heldur ekki gott að óvissa sé í deilumálinu. Það er mjög slæmt að ekki liggi fyrir hver lausnin er, hún ætti að liggja fyrir eins hratt og hægt er. Það má þá breyta henni ef aðstæður breytast. En það sem er verst fyrir barnið eru deilur og óvissa og ef það er rifið frá öðru foreldrinu sem það hefur kynnst í gegnum tíðina, sem er þá yfirleitt faðirinn.

Ég legg til að hv. nefnd ræði þetta mál mjög ítarlega og fái um þetta skilning. Þó að hæstv. ráðherra hafi sagt, sem mér finnst dálítið undarlegt, að hann treysti ekki réttarkerfinu, þá treysti ég því, það er betra að fá slæman úrskurð en engan. Ég treysti réttarkerfinu til að skera á þessa hnúta. Maður hefur engu öðru að treysta, herra forseti, það er engu öðru að treysta í þjóðfélaginu. Ég vil að dómari leggi miklu meiri vinnu í það en gert er í dag að finna út úr því hvernig staða beggja heimilanna er, hvort eitthvað sé að, hvort ofbeldi sé, fíkn o.s.frv. Og síðan getur hann kveðið upp úrskurð ef aðstæður breytast. Ég vil endilega að sameiginleg forsjá sé reglan en ekki undantekningin, eins og hér er gert ráð fyrir. Ég vil að það sé gert að reglu að sameiginleg forsjá sé reglan, nefndin snúi þessu ákvæði við og þá neyðast menn með dómsúrskurði til að tala saman.