140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ræði sama mál og aðrir eðli málsins samkvæmt og ræði þetta líka á sömu nótum og þeir hv. þingmenn sem hafa talað á undan, bæði hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson. Það sama sjónarmið kom fram í andsvari hv. þm. Magnúsar Orra Schrams.

Ég held að við þurfum ekkert að ræða það hversu alvarleg og viðkvæm þessi mál eru. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því af hverju frumvarpið tók þessum breytingum í meðförum eins og raun ber vitni. Það hefur komið fram í fjölmiðlum að þegar það var skrifað í tíð fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, var gert ráð fyrir að heimilt væri fyrir dómara að sjá til þess að báðir foreldrar hefðu forsjá og þar af leiðandi væri tryggt að þeir væru með umgengnisrétt. Eftir því sem ég best veit, og hef ég kynnt mér þetta mál ágætlega, benda allar rannsóknir til þess að þeim börnum sem fá að umgangast báða foreldra vegni mun betur.

Auðvitað er það þannig, virðulegi forseti, að við á löggjafarsamkundunni getum ekki séð til þess að friður verði á skilnaðarheimilum, því miður, ég held að góð sátt væri um að svo yrði. En við sem búum í þessu landi höfum, held ég, flest séð mjög slæm dæmi þess að foreldri fái ekki notið umgengni við börnin sín. Það er alveg gríðarlega alvarlegt mál. Ég veit að það fólk sem hefur bundist samtökum og barist fyrir því að löggjöfin bæti úr hefur beðið mjög lengi eftir frumvarpi þar sem lagt er upp með að við förum sömu leið og farin er annars staðar á Norðurlöndunum.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, ég tala nú ekki um — svo við leikum okkur aðeins í hugtakanotkun — að það stendur upp úr hverjum manni að við viljum sjá norræna velferð, en ég ætla ekki að fara að sundurgreina það. En eftir því sem ég best veit hafa ekki komið önnur sjónarmið, í það minnsta frá fræðasamfélaginu, en þau að æskilegt væri að dómari gæti dæmt sameiginlegt forræði. En ég á mjög erfitt með að skilja af hverju það er lagt upp með þessum hætti í frumvarpinu, ég á mjög erfitt með að skilja það.

Það eru auðvitað ekki rök í málinu að ekki sé hægt að treysta dómstólunum. Þá þarf hæstv. innanríkisráðherra að taka sérstaklega á því ef við erum komin í þá stöðu ekki sé hægt að treysta dómstólum í þessu máli, þá hlýtur það að eiga við önnur líka. Ef það er eitthvað í verklagi dómstóla sem er ábótavant þá þurfum við að laga það, virðulegi forseti. En við þekkjum það, ég held að ég hafi einhvern tíma séð tölur um að helmingur hjónabanda endi með skilnaði. Ég veit ekki hve hátt hlutfall þeirra hjónabanda er þar sem börn eru í spilinu. En sérstaklega meðan börnin eru ung þá er það bara svo í praktíkinni, og maður hefur séð allt of mörg dæmi þess, að börn eru útilokuð frá samskiptum og umgengni við annað foreldri sitt. Ég mundi ætla að góð samstaða ætti að vera um það innan þessa sals og meðal þjóðarinnar að reyna að bæta úr því. Þannig leit frumvarpið út þegar það í vinnslu fór til umsagnar hjá hæstv. fyrrverandi ráðherra, Rögnu Árnadóttur, þannig var það upphaflega.

Ég vil ekki trúa því að við ætlum að fara aðrar leiðir en þær þjóðir sem við berum okkur saman við — menn skyldu samt ekki tala þannig að þar hafi menn náð fullkomnun, því fer víðs fjarri, og er sjálfsagt að líta á allt það sem þar gerist eins og alls staðar annars staðar með mjög gagnrýnum augum — en menn verða þá að koma með mjög haldbær rök ef við ætlum að hafa þetta ástand óbreytt vegna þess að í óbreyttu ástandi eru augljósir gallar. Ég hélt að þetta frumvarp væri komið fram kannski ekki síst til að reyna að vinna úr þeim göllum, en eins og það lítur út er það ekki að gerast.

Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa rætt um málið og tel að breyta eigi því í 13. gr. þannig að dómara verði heimilt að dæma forsjá til beggja foreldra. Einnig held ég, það má vera að það eigi við um önnur lög, ég þekki það ekki, en það væri óskynsamlegt af okkur úr því að við erum að fara í þessa vinnu núna að skoða ekki sérstaklega það sem snýr að lögheimili. Þar erum við að sjá að það foreldri sem er með lögheimili, eða barnið er með lögheimili hjá, virðist hafa mjög sterka stöðu. Hér segir skýrt, virðulegi forseti, í 5. gr., með leyfi forseta:

„Ef foreldrar búa ekki saman hefur það foreldri sem barn á lögheimili hjá heimild til þess að taka afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barnsins, svo sem um hvar barnið skuli eiga lögheimili innan lands, um val á leikskóla, grunnskóla og daggæslu, venjulega eða nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns skulu þó ávallt leitast við að hafa samráð áður en þessum málefnum barns er ráðið til lykta.“

Ég held að skynsamlegt væri að skoða þetta ákvæði sérstaklega hjá hv. velferðarnefnd og í leiðinni að fara í mál sem ég spurði hæstv. velferðarráðherra um, fyrir ég held einu og hálfu ári síðan, sem snýr að umönnunarbótum en á örugglega við fleiri þætti. Þannig er, virðulegi forseti, að þar sem um er að ræða langveik börn og umönnunarbætur eru greiddar af hinu opinbera til að koma til móts við þann gríðarlega kostnað sem hlýst af því þegar barn er langveikt, þá fer öll upphæðin til foreldrisins þar sem lögheimili barnsins er þrátt fyrir að forræðið sé skipt. Með öðrum orðum, barnið er viku og viku eða hálft árið hjá öðru foreldrinu og hinn helminginn hjá hinu en umönnunarbæturnar fara bara til foreldrisins þar sem lögheimili barnsins er.

Nú breytir það engu — ég þekki dæmi þess að um er að ræða fráskilið fólk þar sem sú manneskja sem er með miklu lægri laun fær engar umönnunarbætur en hálaunamanneskjan fær umönnunarbætur. Slíkt dæmi dregur fram hversu ósanngjarnt þetta fyrirkomulag getur verið.

Virðulegi forseti. Við getum ekki komið í veg fyrir deilur milli fyrrverandi hjóna og því miður bitna þær deilur oft á börnunum. Við getum hins vegar gert hvað við getum sem löggjafi til að gæta hagsmuna barnsins. Ég tel að við gætum hagsmuna barnsins betur með því að gera það sem við getum til að sjá til þess að börn hafi tækifæri til að umgangast báða foreldra.

Við þá sem ekki þekkja til get ég sagt að ég þekki dæmi þess að foreldrar hafi ekki fengið að umgangast börn sín jafnvel mánuðum og árum saman. Og þá skiptir engu þó svo foreldrið, sem á eðli málsins samkvæmt að sjá til þess að barnið hafi umgengnisrétt við hinn aðilann, þurfi að greiða dagsektir eða annað og öðrum úrræðum sé beitt, það hefur ekki breytt neinu. Ég þekki fleiri en einn og fleiri en tvo einstaklinga sem hafa ekki fengið að sjá börnin sín út af svo hatrömmum deilum. Hver líður fyrir það, virðulegi forseti? Barnið líður fyrst og fremst fyrir það þó að auðvitað fylgi því sálarkvalir hjá foreldrunum líka.

Virðulegi forseti. Ég vil mælast til þess að þessu ákvæði verði breytt í hv. nefnd, og ef ekki mun ég beita mér fyrir því í þinginu, ég heyri að margir þingmenn eru á þeirri sömu línu, að því verði breytt við atkvæðagreiðslu og að það verði þá í leiðinni skoðað, hvort sem það yrði í þessum lögum eða öðrum, að hægt verði að skipta til dæmis umönnunargreiðslum og öðru slíku á milli aðila þegar um er að ræða sameiginlega forsjá. Ég er líka afskaplega ánægður með að heyra að þeir þingmenn sem ég hef hlustað á eru mér sammála.