140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tölvan er mannanna verk og við eigum aldrei að sætta okkur við það þegar tölvan segir nei, enda þótt gaman sé að horfa á skemmtiþátt sem gerir svolítið mikið úr því og því miður er svolítið til í því gríni í þeim ágæta enska gamanþætti.

Ég lít svo á, virðulegi forseti, að við hljótum að setja okkur markmið og það er að hugsa um hag barnsins. Það er augljóslega hagur barnsins að samskipti við báða foreldra séu eins mikil og mögulegt er og ef það er vilji foreldranna, sem ég held að sé í flestum tilfellum sem betur fer, þá sníðum við hlutina út frá því. Það er markmiðið. Við skulum vinna út frá því.

Ég er mjög lítið fyrir að hlusta á svör þar sem sagt er: Þetta er ekki hægt. Auðvitað er þetta allt hægt. Kannski þarf að búa til tvöfalt lögheimili. Ég hélt til dæmis varðandi umönnunarbæturnar að það ætti ekki að vera neitt sérstaklega flókið mál. Það er hróplegt óréttlæti og afskaplega óskynsamlegt og getur gert til dæmis fólki sem hefur ekki mikið fé milli handanna erfitt fyrir að vera með börn sín ef það getur ekki nýtt sér umönnunarbætur og þær fara bara til annars aðilans. Ég lít svo á að þetta sé verkefni okkar og nú er þetta í höndum löggjafans. Hv. þingmenn úr nokkrum flokkum hafa talað með sama hætti og við erum hér í salnum, það getur vel verið að einhverjir séu ósammála þessu en ef við getum ekki breytt þessu í þinginu er lítið gagn í okkur.