140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:44]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, með síðari breytingum, forsjá og umgengni. Hér hefur aðallega eitt mál verið uppi sem er mikið deilumál, það er heimild til dómara um að dæma sameiginlega forsjá. Það er heitasta kartaflan í málinu.

Ég vil gera grein fyrir skoðunum mínum í þessu sambandi og þær ríma við þær skoðanir sem komið hafa fram, að undanskilinni skoðun hæstv. innanríkisráðherra. Það er alla vega skoðun mín að dómarar eigi að fá þessa heimild, sambærilegar heimild og er á öðrum Norðurlöndum. Þetta eru auðvitað gríðarlega erfið og viðkvæm mál. Það er varla hægt að lýsa því í stuttu máli hvað það er erfitt fyrir börn og foreldra þegar skilnaðir verða og tekist er á um umgengni og forsjá. Börn upplifa mikla reiði, sorg og kvíða og því er einmitt lýst í greinargerðinni hvernig þær tilfinningar geta brotist út, jafnvel þannig að börn hafni umgengni við annað foreldrið, ásakanir eru um heilaþvott og að barni og öðru foreldrinu sé att saman o.s.frv. Þetta eru gríðarlega viðkvæm og erfið mál. Ég held að þau börn sem lenda í erfiðustu málunum jafni sig aldrei alveg á þeim.

Það hefur auðvitað mjög margt breyst í þessum málum upp á síðkastið og á síðustu áratugum. Áður fyrr fylgdu börn nánast undantekningarlaust móður sinni í þessum tilvikum en hin seinni ár hafa þessi mál breyst, sem betur fer, eftir mikla jafnréttisumræðu og miklu meiri þátttöku feðra í uppeldi barna sinna, þannig að nú eru karlmenn miklu virkari og þar af leiðandi hafa þeir miklu meiri áhuga á að sinna börnum sínum áfram þó að hjón eða sambúðarfólk lendi í skilnaði. Þróunin hefur verið mjög jákvæð og nú er miklu eðlilegri staða en áður þegar móðirin annaðhvort tók eða fékk börnin í nánast öllum tilvikum.

Fjölskylduformið hefur breyst mikið. Mörg börn lifa í fjölskyldum þar sem stjúpforeldrar eru til staðar, hálfsystkini, stjúpsystkini o.s.frv. Þar getur verið mikið flækjustig en þetta er fjölskylduform dagsins í dag. Það hefur breyst mjög mikið.

Þróunin á hinum Norðurlöndunum er í sömu átt. Fram kemur í greinargerðinni að skiptar skoðanir séu á Norðurlöndum um jafna búsetu barns og þar er mikil umræða um þessi mál sem við höfum farið í gegnum á Íslandi. Mun fleiri foreldrar skipta nú umönnun barna sinna algerlega á milli sín. Börnin búa kannski í viku hjá öðru foreldrinu og viku hjá hinu. Það var alveg óhugsandi á fyrri tíð. Fram kemur að Norðmenn hafa gengið hvað lengst varðandi það að skilgreina hugtakið jöfn búseta. Ég ætla ekki að fara nánar út í það, en Norðmenn eru greinilega nokkuð framsýnir í þessum málum .

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ræddu þessi mál í andsvörum. Þar kom meðal annars fram, sem kemur einnig fram í frumvarpinu, að hvergi á Norðurlöndum sé gert ráð fyrir því að foreldrar geti samið um að barn eigi tvö lögheimili. Í greinargerð með frumvarpinu stendur að telja verði að flest rök mæli gegn því. Svo eru tínd til rök varðandi það mat og meðal annars tekið fram að mörg önnur réttindi fylgi lögheimili, meðal annars aðalréttindi frá sveitarfélögum, þannig að það sé flókið mál. Ég er ekki viss um að það þurfi að vera svo flókið og ég tek fram af því tilefni að Framsóknarflokkurinn ályktaði sérstaklega um það atriði á síðasta flokksþingi. Ég ætla að lesa það upp, með leyfi virðulegs forseta. Þar stendur:

„Skoðaðir verði kostir og gallar við að heimila að börn hafi tvöfalt lögheimili í þeim tilfellum þar sem foreldrar búa á tveimur stöðum og hafa sameiginlega forsjá.“

Framsóknarflokkurinn telur að skoða eigi þetta en það er ekki lagt til í frumvarpinu. Við teljum að fara megi fram skoðun á því máli og þá verður auðvitað að skoða hvort það sé svona flókið að ekki sé hægt að gera það. Ég tel þó að það þurfi ekki að vera svo flókið.

Varðandi heitu kartöfluna, þegar foreldrar eiga erfitt með að semja um forsjá, má segja að við þingmenn höfum notið ákveðinnar leiðsagnar Félags um foreldrajafnrétti. Ég tek það fram að félagsmenn hafa verið mjög virkir í félaginu og sú er hér stendur hefur hitt fulltrúa þess alla vega tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið kom Lúðvík Börkur Jónsson ásamt öðrum manni og fór yfir þessi mál og í seinna skiptið kom Unnur Birna Vilhjálmsdóttir ásamt öðrum úr félaginu og ræddi þessi mál við mig. Ég veit að þau hafa rætt við marga þingmenn þannig að ég held að við séum frekar vel upplýst um þetta deilumál. Það er reyndar rétt sem þau héldu fram og það kemur reyndar ágætlega fram í greinargerðinni á bls. 28 og 29, að öll hin Norðurlöndin hafa lögfest heimild til dómara um að kveða á um sameiginlega forsjá að kröfu annars foreldris. Ég trúi ekki öðru en Norðurlöndin hafi skoðað það mál mjög vel áður en þau ákváðu að breyta lögum sínum og ég hallast að því að við eigum að gera hið sama. Færð eru ágætisrök fyrir því í greinargerðinni og fjallað er um það á bls. 28 að það sé gríðarlega mikilvægt að foreldrar séu sammála um þessi mál. Þeir eru það ekki alltaf, því miður. Þeir eru það reyndar oftast en ekki alltaf.

Færð hafa verið rök fyrir því að langmikilvægast sé að foreldrar geti leyst úr forsjármálum í sátt og samlyndi en í frumvarpinu stendur eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Hins vegar þykir ekki mega líta fram hjá því að sameiginleg forsjá getur átt rétt á sér þótt foreldrar séu ekki sammála um allt í lífi barns, takist á og þurfi jafnvel að leita aðstoðar til að leysa úr ágreiningi. Þá verður að taka tillit til þess að forsjá hefur mikilvæg réttaráhrif jafnvel þegar um lítil samskipti er að ræða og má nefna hér sem dæmi réttarstöðu forsjárforeldris við andlát hins foreldrisins, réttinn til aðgangs að gögnum um barn og réttinn til að taka stærri ákvarðanir í lífi barns. Lykilatriði er hvort foreldrum tekst að halda barni utan við ágreining og tryggja að ágreiningurinn, eða það hvernig foreldri beitir forsjánni, komi ekki í veg fyrir, hindri eða dragi úr möguleikum barns á að alast upp við örugg og þroskavænleg skilyrði. Minnt er á að sameiginleg forsjá hefur engin sjálfkrafa áhrif á inntak umgengnisréttar eða hvernig honum verður beitt.“

Síðar í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Hér má einnig líta til þess að heimild dómara er talin geta haft jákvæð áhrif á samstarfsvilja foreldra og sporna jafnvel gegn því að annað foreldri krefjist þess að fá eitt forsjá vegna tilfallandi deilumála. Bent hefur verið á að ástæða forsjármála sé stundum smávægilegur eða tilfallandi ágreiningur sem ætti ekki að skipta máli þegar til framtíðar er litið miðað við ríka hagsmuni barns af því að njóta forsjár beggja foreldra. Heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá geti þannig út af fyrir sig aukið mikilvægi og gagnsemi ráðgjafar og sáttaumleitana þegar foreldrar deila um forsjá.“

Hér eru færð rök fyrir því að þessi heimild, bara það að hún sé fyrir hendi, geti verið mjög mikilvæg í svona sáttaferli en ég tek undir það sem komið hefur fram að talað er um sáttaumleitanir í frumvarpinu, sem er nýmæli og það er mjög jákvætt. Gerð var tilraun í Reykjavík varðandi sáttaumleitanir og það sýndi sig að þegar deiluaðilar fóru í sátta- og ráðgjafarferli leystist ágreiningurinn í langflestum tilvikum, í 90% tilfella, þannig að það er mjög jákvætt. En eins og ég skil hæstv. innanríkisráðherra og þau fátæklegu rök sem mæla gegn dómaranefndinni, held ég að ekki sé nóg að treysta bara á þetta sáttaferli, að það sé fyrsta skrefið að treysta bara á sáttaferlið og sjá svo til hvort við veitum þessa dómaraheimild síðar. Ég held að við verðum að taka skrefið strax og veita dómurum þessa heimild eins og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum og treysta því að henni verði beitt á farsælan hátt. Ég hef engar efasemdir um að það verði ekki gert, ég treysti dómstólunum að þessu leyti.

Ég vil að lokum vekja athygli á áhugaverðri töflu á bls. 15 í greinargerðinni, þar er tölfræði yfir forsjá foreldra, lögskilnaði og sambúðarslit 1991–2008 og taflan lýsir að mínu mati skemmtilegri þróun. Þó að um sé að ræða gríðarlega sorgleg og erfið mál er þróunin góð; árið 1991, í upphafi tímabilsins, fær móðirin forsjá nánast í öllum tilvikum. Síðan lækkar sú súla jafnt og þétt til loka þessa tímabils, árið 2008, þannig að móðirin fer ekki ein með forsjána nema í minni hluta tilvika í lok tímabilsins. Þá er sameiginlega forsjáin eiginlega það sem gildir og það er sú súla sem farið hefur nánast úr 0% árið 1991 í 85% árið 2008, enda var það ekki fyrr en 1992 sem möguleiki á sameiginlegri forsjá var lögleiddur. Það eru 20 ár síðan sameiginleg forsjá var lögleidd, árið 1991, þá var hún hreinlega ólögleg, en árið 2008 voru börnin í sameiginlegri forsjá í 85% tilvika, það er alveg gríðarlega jákvætt.

Hins vegar kemur fram að ef foreldrar fara ekki sameiginlega með forsjá, þ.e. í þessum afgangstilfellum, sem eru þá ekki þessi 85,6% heldur afgangurinn, er mun algengara að móðir fari með forsjá barnsins. Árið 2008 fékk móðir þannig samtals ein forsjá alls 152 barna og faðir einn forsjá alls 12 barna. Þar er auðvitað mikill munur á. Ég tel að við séum komin það langt í þessu að treysta eigi dómurum til að fara vel með heimild til að dæma um forsjá barna þar sem samkomulag næst ekki. Ég geri því talsverðar athugasemdir við frumvarpið eins og það lítur út núna og tek undir þá skoðun sem fram kom í mjög góðri ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar sem hefur kynnt sér þessi mál mjög vel, að frumvarpið allt og greinargerðin eru meira og minna rök fyrir því að veita dómaraheimildina. Það er eins og ráðherraskiptin hafi kallað fram nýja afstöðu og hæstv. innanríkisráðherra, sem hefur aðra skoðun, leggur ekki til að heimila dómurum að dæma um sameiginlega forsjá og þess vegna er greinargerðin svo rýr hvað þau rök varðar. Það eru ótrúlega lítil rök fyrir því að hafna dómaraheimild, þau eru mjög fátækleg. Það er bara sagt: Við treystum á að sáttaferli leysi málin, svo sjáum við til. Við veitum kannski dómaraheimildina síðar, sáttaleiðin er á fyrsta stigi. Sáttaleiðin er mjög góð en að mínu mati eigum við að taka hitt skrefið líka, eins og hin Norðurlöndin, og veita dómurum heimild til að dæma um forsjá.